150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fjármögnunin kemur nánast öll frá ríkinu og skattpíndum íbúum höfuðborgarsvæðisins. Hæstv. ráðherra má eiga það að hann leyfði sér að viðurkenna það hér áðan þegar hann sagði að af hálfu sveitarfélaganna væri í sjálfu sér ekki mikið um framlög í þessu máli. Þannig að fjármagnið kemur frá ríkinu. Af hverju tekur ríkið ekki stjórnina og ákveður hvernig það ætlar að haga þessum málum í stað þess að láta megnið af fjármagninu sogast ofan í einhverja dæmalausa vitleysu eins og þessi borgarlína verður, sem greinilega er enn þá óljóst hvað er? Er þetta forgangsakrein eða er þetta lest? Það veit það enginn nema borgin. Hún er búin að úthugsa þetta og er búin að setja verkefnið á teinana þar sem það mun halda áfram þegar kerfið er komið af stað. Ríkið er hins vegar búið að skuldbinda sig til að standa straum af kostnaðinum með skatttekjum, með sölu lands og með nýjum refsigjöldum.