150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég nenni ekki að elta ólar við hátt stemmdar og það sem eiga að vera sláandi myndlíkingar hv. þingmanns. Menn verða bara að velja sér þá pólitík sem þeir hafa geð í sér til að stunda. En ég hef oft hlustað á hv. þm. tala um sjálfan sig og flokkinn sem hann leiðir sem flokkinn sem er með lausnina á ótal mörgum hlutum. Þess vegna langar mig að reyna, þó ekki væri nema að reyna, forseti, að fá hv. þingmann núna til að gera eitthvað annað en að mála myndir af dragúldinni austurþýskri súpu — sem hann á einhvern hátt virðist telja máli sínu til stuðnings og framdráttar — og reyna að koma með lausnina, standa við stóru orðin sín.

Spár sögðu okkur árið 2014 að á næstu 25 árum myndi fjölga hérna á höfuðborgarsvæðinu um 70.000. Þær standast ekki, það hefur fjölgað meira. Á síðustu fimm árum hefur fjölgað um 20.000, næstu fimm um sirka 23.000. Ef ferðavenjum alls þessa hóps verður ekki breytt, hann detti inn í sama ferðamynstur og við erum með hér núna og þótt við byggðum öll þau vegamannvirki sem ég veit að hv. þingmann dreymir um, mislæg gatnamót hér og mislæg gatnamót þar, þá segja líkön — og líkön treystum við á ekki satt, forseti — að tafir muni aukast um 25% á þessum tíma þrátt fyrir alla milljarðatugina í vegaframkvæmdir. Hvernig ætlar hv. þm. að leysa það vandamál? Því að út á það snýst ábyrg pólitík, að standa ekki hér, mála ekki hlutina einhverjum þeim fáránlegu litum sem fólk heldur að slái kannski í hjörtum einhvers og nái til eitthvers þarna úti, heldur ábyrgð. Þetta er vandinn, forseti. Hvernig ætlar hv. þm. að leysa hann?