150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það verður aldrei of oft sagt að það er ómetanlegt fyrir okkur hér á þinginu að hafa með okkur menn sem eru á svona miklu hærra plani en flestir aðrir og geta útskýrt hlutina frá allt öðru og miklu hærra sjónarhorni. En af því að hv. þingmaður dregur einmitt fram mjög svarta spá, hafandi áður gagnrýnt svartsýni mína varðandi þessi áform, um framtíð umferðarþróunar á höfuðborgarsvæðinu með fjölgun fólks, þá má benda hv. þm. á að það eru til mun fjölmennari borgir en Reykjavík og höfuðborgarsvæðið og borgir þar sem umferðin gengur mun betur og það eru ekki allt gamlar miðaldaborgir, þéttbyggðar borgir þar sem hægt er að reiða sig á sporvagna eða borgarlínu eða neðanjarðarlestir, þar sem víða hefur tekist mjög vel til við að skipuleggja umferð og miklu betur en hér í Reykjavík. Stór hluti af vandanum sem við stöndum frammi fyrir nú og umferðartöfunum sem flestir upplifa á höfuðborgarsvæðinu daglega, er að ekki hefur verið tekið á flöskuhálsunum. Það hefur ekki verið ráðist í þær framkvæmdir sem ég og hæstv. fjármálaráðherra erum sammála um að séu löngu tímabærar og þá myndast flöskuhálsar sem stöðva í rauninni umferðina meira og minna um alla borg. Á meðan þetta er staðan þá lagast ekkert. En stóra áhyggjuefnið hvað þetta varðar er hins vegar að þetta er ekki bara óleyst vandamál. Það er stefna borgaryfirvalda, að viðhalda þessum umferðarteppum í borginni og hægt að vísa í yfirlýsingar þar um til að þvinga fólk í annan samgöngumáta til að hjálpa til við neyslustýringu.