150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Það kemur ekki á óvart að hér hafi ekki komið neitt svar við beinni spurningu minni. Það kemur ekki á óvart að hv. þingmaður, sem talar um að það sé að vera á hærra plani en aðrir að styðjast við gögn, hafi ekki svör við því hvernig á að leysa þetta risavaxna vandamál. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan hvað lausnin sem hv. þingmaður ýjar að, þó að hann tali nú aldrei almennilega um hana, hefur í för með sér. Hann minnist ekki á það einu orði, blæs það út af borðinu, þetta eru tölur og staðreyndir sem henta mér ekki í mínum málflutningi. Gerum þær tortryggilegar og tökum þær ekki með.

Hv. þingmaður sagði að stofnun þessa félags, svo við förum nú að tala um það, minnti á Berlín 1960. Ég veit að hv. þingmaður er hrifinn af mörgu sem kemur frá Noregi. Ég hlustaði á hann vitna margoft í Norðmenn í fyrra. Í öllum borgarsamfélögum í Noregi hefur verið stofnað nákvæmlega svona félag um framkvæmdir tengdar almenningssamgöngum sem margar eru á pari við borgarlínuna. Telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að þau sveitarfélög og ríkisstjórn Noregs hafi þá líka hegðað sér eins og Berlín 1960 (Forseti hringir.) eða er þetta bara ódýr pólitík eins og hv. þingmaður er frægastur fyrir?