150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka af skarið með það í þessari umræðu að það sem hér er á borð borið sé á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins ekki síður en Samfylkingarinnar. Því miður óttast ég að það sé rétt og ég hef bent á það að undanförnu að ég hafi miklar áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn sé að þróast yfir í að verða Samfylkingin, kannski eins og Samfylkingin var fyrir rúmum áratug síðan. Hér höfum við enn eina vísbendinguna um það.

En af því að hv. þingmaður spyr um samgöngur og hvað sé til ráða þar og hvort við styðjum almenningssamgöngur, má nefna, af því að ég gleymdi að svara hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé áðan varðandi Noreg, að Norðmenn hafa prófað eitt og annað, m.a. borgarlínu í Stafangri, sem gekk ekki upp. Hún fór náttúrlega langt fram úr kostnaði og var miklu minna nýtt en lagt var upp með þegar það verkefni var boðað. Það sama höfum við séð gerast í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu varðandi Strætó. Ráðist var í sérstakt verkefni, eins og ég nefndi áðan, um að styrkja Strætó um 1 milljarð króna á ári gegn því að draga úr öðrum framkvæmdum. Það má ekki gleymast. Það átti að fylgja sögunni að þrengja að umferðinni annars staðar með því að ráðast ekki í aðrar framkvæmdir og styrkja Strætó til að fjölga þeim sem nýttu sér almenningssamgöngur úr 4% í 8%. Hver var afraksturinn eftir tíu ár? Það byrjaði í 4% og endaði í 4%.

Við styðjum að sjálfsögðu almenningssamgöngur vegna þess að þær þurfa að vera til staðar fyrir þá sem geta nýtt sér þær. Ég hef nýtt mér almenningssamgöngur í gegnum tíðina. Ég fór iðulega í framhaldsskóla og háskólann í strætó og líkaði ágætlega nema hvað ég missti allt of oft af vagninum. En almenningssamgöngur þurfa að vera til staðar og það verður kostnaðarsamt. Það er eðlilegt að sá kostnaður skiptist skynsamlega, en það er alls ekki eðlilegt að ráðast í nýja, rándýra delluframkvæmd til að ríkið sitji uppi með margfaldan þann kostnað til langs tíma og sé verr í stakk búið til að þjónusta fólkið með almenningssamgöngum.