150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hvernig getur strætisvagn í sérrými, eins og hv. þingmaður kallaði það, eða á sérakrein, kostað 100 milljarða samkvæmt áætlun, og þá væntanlega 200 milljarða í raunveruleikanum? Hæstv. fjármálaráðherra hefur þó viðurkennt að enn sé allt á huldu um hvað borgarlína sé. En hv. þingmaður veit það og virðist telja að þetta sé bara sérstök forgangsakrein fyrir strætó.

Hv. þingmaður spurði mig líka út í viðhorf mitt til borgarskipulags almennt og vísaði þar í hestvagna. Vandamálið við þann samanburð er að það sem hv. þingmaður talar fyrir hér, borgarlína, er einmitt hugmynd frá tímum hestvagnanna. Þetta eru línulegar samgöngur. Og eins og oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík hefur útskýrt svo vel eru menn fastir í fortíðinni, fastir í 19. öldinni, fastir á tímum hestvagnanna. Þar erum við ekki í Miðflokknum, en ég mun þurfa lengri tíma til að útskýra stefnu mína í skipulagsmálum borgarinnar almennt.