150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Ég þakka andsvarið. Fyrst vil ég byrja á því sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á í lokin: Skárra væri það nú að farþegum í Strætó hefði fjölgað hvað hausa varðar en það að hlutfallið sé það sama eftir allt þetta átak hljóta að vera alveg gríðarleg vonbrigði. Mig langar að spyrja, þó að ég sé ekki í þeirri stöðu að spyrja spurninga núna en af því að við höfum rúman tíma: Hvaða hlutfall frá upphafi þess samnings um framkvæmdastoppið til dagsins í dag hefði hv. þingmaður talið fagnaðarefni? Um hvaða hlutfall farinna ferða hefði hv. þingmaður sagt: Okkur tókst þetta, þetta gekk upp? Hefði það verið 6, 8, 10, 12%? Það væri áhugavert að heyra.

Ég er hræddur um að hv. þingmaður sé að rugla saman að nokkru marki; hvað varðar samgöngur á landsbyggðinni þá snýst þetta um samgöngur á milli svæða, ekki innan sveitarfélaganna. Síðustu tíu ár segir hv. þingmaður að fé til nýframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu hafi verið 16% af öllum fjárveitingum til nýframkvæmda. Ég hef ekki skoðað þessa tölu en ég gef mér að hv. þingmaður sé búinn að leggja þetta saman. Miðað við þau verkefni sem stjórnvöld, Vegagerðin og ríkið hafa viljað fara í allan þennan tíma, þá jaðrar við að það sé mesta furða að tekist hafi að koma 16% af framkvæmdafénu fyrir hér á höfuðborgarsvæðinu því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu höfðu frumkvæði að því að gera samning um framkvæmdastopp, engar stórframkvæmdir. Auðvitað orsakar það lægra hlutfall til höfuðborgarsvæðisins, það getur ekkert annað gert. Þess vegna tala ég um að þessar framkvæmdir hafi verið í gíslingu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undanfarið.