150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Ég hefði gjarnan viljað fá þetta mál til umhverfis- og samgöngunefndar. En það verður ekki raunin nema eitthvað sérstakt komi upp á.

En svo ég byrji á því sem hv. þingmaður kom inn á í lokin þar sem hún talaði um að hér væri um að ræða valfrelsi fólks, að gefa fólki kost á að velja hvaða lausn það vildi til að komast frá A til B. Fólk er einmitt búið að velja. (BHar: Er það?) Það er búið að velja einkabílinn. Það blasir við í þessu átaki upp á milljarða á ári árum saman til að styðja við Strætó varð árangurinn enginn. (KÓP: Það er rangt.) Hv. þingmaður, hlutfall farinna ferða var 4,0% þegar átakið byrjaði og það er enn þá 4%. (KÓP: 6% samkvæmt nýjustu …) Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði áðan að 8% farinna ferða hefði verið ásættanlegt, eins og hún orðaði það, ásættanlegt 8%. (Gripið fram í.) Já, 8%. Hv. þingmaður mat það svo að 100% aukning í hlutfalli farinna ferða væri ásættanleg niðurstaða. Niðurstaðan varð 0 þegar ásættanleg aukning var 100%. Ég veit ekki betur en að hlutfall farinna ferða sé 4% samkvæmt síðustu upplýsingum. Þannig að ásættanlegur árangur í aukningu var 100%. Niðurstaðan varð 0. Þess vegna segi ég: Við verðum að fara varlega í þessum efnum.

En svo ég komi að spurningunni: Hverju höfum við trú á? Ég held að það væri skynsamlegt til að mynda að byrja að taka á ljósastýringunum á höfuðborgarsvæðinu. (BHar: Það er hluti af samkomulaginu.) Það er einmitt hluti af samkomulaginu og eiginlega alveg magnað að ekki sé löngu búið að keyra það í gegn og það mun ég styðja af öllum mætti. Ég held að þar gæti náðst mikill árangur. Ég held að hleypa þyrfti stórframkvæmdum á stofnvegakerfinu áfram í staðinn fyrir að gera samning um að stoppa mikilvægustu framkvæmdirnar, sem er akkúrat það sem gert var í samningnum sem ég kallaði samning um framkvæmdastopp. (Gripið fram í.) Já, en þetta samkomulag næst fram með því að taka Vegagerðina og stjórnvöld (Forseti hringir.) hvað samgöngumál varðar í gíslingu. (Forseti hringir.) Það var nú bara þannig.

Ef það er ekki (Forseti hringir.) skilningur fulltrúa fyrrverandi formanns samgöngunefndar í Mosfellsbæ, (Forseti hringir.) ef ég man rétt, þurfum við að tala saman (Forseti hringir.) þegar rýmri tími er.

(Forseti (BN): Það fór lítið fyrir loforði hv. þingmanns.)

Ég stend við það næst.