150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé svarið. Í þetta skipti verð ég að koma upp sem fulltrúi skattgreiðenda. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hélt rétt áðan innblásna ræðu um þann mikla árangur sem náðst hefði milli ára í núverandi kerfi. Hv. þingmaður sagði áðan að hlutfall farinna ferða væri komið upp í 5–6%, eftir því hvaða svæði væri skoðað. Hann heldur fram að mikill árangur, 25–50% aukning, hafi orðið á milli ára. Ég sem fulltrúi skattgreiðenda verð að segja að mér þykir það algerlega ótrúlegt ef hv. þingmaður vill ekki láta á það reyna hvort núverandi fyrirkomulag ýti undir frekari vöxt á því hlutfalli. Á sama tíma gætum við t.d. innleitt ljósastýringar, sem verið hefur tregða á um langa hríð að innleiða með nútímatækni.

Það blasir við öllum að skipulagsákvarðanir Reykjavíkurborgar í samgöngumálum snúa allar að því að tefja fyrir einkabílnum. Ég verð því að spyrja aftur sem fulltrúi skattgreiðenda, eins og við erum öll hér inni: Telur hv. þingmaður það forsvaranlega meðferð á almannafé að setja tugi milljarða í svokallaða borgarlínu, sem hann gagnrýndi hv. formann Miðflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrir að hafa ekki náð utan um hvað væri á öllum þeim árum sem hún hefur verið til umræðu? Á sama tíma hefur hæstv. fjármálaráðherra komið hér upp og lýst svipuðum skilningi eða skilningsleysi á því sem um er að ræða. Ef hæstv. fjármálaráðherra með allar þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að nær ekki utan um það er ekki furða að það sé óljóst í hugum margra.

Er algjörlega útilokað að hv. þingmaður sé tilbúinn til að gefa núverandi fyrirkomulagi örlítið meiri tíma úr því að núna loksins er að nást árangur eftir allan þann tíma sem enginn árangur náðist?