150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Síðari spurning þingmannsins er þrugl og ekki svaraverð. Það væri ágætt ef hv. þingmaður hlustaði á sjálfan sig. Þegar hann þarf að gagnrýna þá talar hann bara um Reykjavík. Þá snýst borgarlína bara um Reykjavík. Svo man hann stundum að þetta er miklu meira en Reykjavík. Þetta er Garðabær, Mosfellsbær, Hafnarfjörður og Seltjarnarnes. Andúð hv. þingmanna Miðflokksins á borgaryfirvöldum í Reykjavík litar málflutning þeirra svo til skammar er. Allt höfuðborgarsvæðið, hvar í flokki sem fólk stendur, kom að þessu eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir lýsti. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í þetta rugl með síðara andsvari.

Já, það eru 200.000 manna borgir og þarf ekki annað en að kynna sér þau gögn sem liggja fyrir. Þrándheimur, við höfum nefnt hann hér og Álaborg. Þetta eru minni borgir en höfuðborgarsvæðið, 120.000 í Álaborg. Stavanger er svipað stór og höfuðborgarsvæðið allt. Óðinsvé, Lundur, Oulu. Ég skal senda hv. þingmanni tæmandi lista.