150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það var svo sem ekki eiginleg spurning í andsvarinu. (KÓP: … í ræðu. ) — Akkúrat. En ég hafna því algjörlega að það sé einhver sérstök andúð sem móti skoðanir mínar. Ég hef andúð á því hvernig Reykjavíkurborg hefur hagað skipulagsmálum sínum í tengslum við umferðarflæði og samgöngur, það skal ég vera manna fyrstur til að viðurkenna, en í því felst engin almenn andúð á Reykjavíkurborg, guð minn góður, ekki halda fram svona endemisvitleysu, (Gripið fram í.) hv. þingmaður. Umferðarvandamálið, flæðið, hverfist allt um það hvernig Reykjavíkurborg hefur hagað sínum málum. Auðvitað eru nágrannasveitarfélögin öll tengd þessu máli, skárra væri það nú. Það blasir við. Þau eru aðilar að því samkomulagi sem hér er verið að reyna að ramma inn með þessari lagasetningu. Reykjavíkurborg hefur með öllum tiltækum ráðum undanfarin ár þrengt sem mest hún má að umferð einkabílsins. Ég leyfi mér að nota það orðalag að þar blasi við algjört ofstæki þegar kemur að andúð núverandi skipulagsyfirvalda í Reykjavíkurborg. Ég ætla ekki að fara út í einhverjar heitingar eins og hv. þingmaður hefur gert dálítið í andsvörum sínum en ég ítreka og skil eftir þessa spurningu: Telur hv. þingmaður forsvaranlegt að þessum markmiðum sé náð fram með því að leggja kostnað í það sérstaklega að þrengja að einkabílnum, ekki með því að ýta undir getu almenningssamgangna, heldur með því að þrengja beinlínis að einkabílnum?