150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég verð að biðja hæstv. forseta afsökunar á því að ég kem hér nánast móður og másandi, ég var að reyna að klára fyrirvara við frumvarp í efnahags- og viðskiptanefnd. Allt er þetta að gerast á sama tíma þetta kvöldið. Ég missti af ræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, ef það var mikið tjón í því þá bið ég hæstv. forseta að láta mig vita svo að ég geti brugðist við.

Ég hafði boðað það að ég yrði hér með stutta ræðu til að fara yfir eðli þessa opinbera hlutafélags sem hér er lagt til að verði stofnað og þar ætla ég að láta nægja að vísa í frumvarpið sjálft í stað þess að vera með miklar getgátur um hvers sé að vænta en menn geta svo fyllt í eyðurnar. Við höfum séð þetta áður, herra forseti, þegar stofnuð eru svona félög og hvert það leiðir. Síða 4 í frumvarpinu hefst á þessari merku setningu, með leyfi forseta:

„Fram að stofnun félagsins annast verkefnisstofa um Borgarlínu í samstarfi við Vegagerðina undirbúning verkefnisins um uppbyggingu á samgönguinnviðum.“

Með öðrum orðum, fram að því að menn klára að stofna þetta félag, sem hér er boðað að verði stofnað af hálfu ríkisstjórnarinnar, þá á að setja þetta af stað og hver á að sjá um það? Verkefnisstofa um borgarlínu, hafi menn haft einhverjar efasemdir um hver væri megintilgangur þessa frumvarps. Á sömu síðu segir: „Verkefni félagsins er að halda utan um fjárfestingu í samgönguinnviðum til næstu 15 ára, …“ hvorki meira né minna. Þá má velta fyrir sér hvort ríkisstjórnin geri ráð fyrir því að næstu kannski fimm, sex ríkisstjórnir verði á sama máli. Kannski telja menn að það skipti ekki máli, málið verði komið á teina, á línuna, borgarlínuna og þá skipti ekki öllu máli hvað kjörnir fulltrúar muni vilja gera í því, því að kerfið haldi einfaldlega áfram. Á síðu 8 í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Því er mikilvægt að félagið fari með yfirumsjón og eigendaeftirlit með uppbyggingu samgöngumannvirkja gagnvart Vegagerðinni og gæti að áætlanagerð og áhættustýringu vegna verkefnisins í heild.“

Með öðrum orðum, það er verið að undirstrika að þetta nýja félag eigi að taka við því sem ella væri vald lýðræðislega kjörinna fulltrúa, þar af leiðandi kjósenda. Þetta er kerfisvæðing og með því verið að skera á lýðræðislegar ákvarðanir í samgöngumálum. Ef við grípum niður á næstu síðu, síðu 9, þá segir þar, með leyfi forseta:

„Þá er gert ráð fyrir sérstökum stýrihópi eigenda, eins og nánar verður útfært í hlutahafasamkomulagi, sem fer yfir stefnumótandi mál sem tengjast verkefninu og veitir stuðning við úrlausn ágreiningsmála sem kunna að koma upp. Verði t.d. verulegar breytingar gerðar á áætlunum miðað við samgöngusáttmála eða á tilgangi eða hlutverki félagsins er miðað við að það verði tekið fyrir í stýrihópi.“

Hvað segir þetta okkur? Ég hef ekki tíma til að lesa þetta aftur þótt tilefni væri til. Þetta segir okkur að ef breytingar verða á stefnu þá á ekki að taka það upp hér í þinginu, ekki í kosningum, ekki meðal stjórnmálamanna eða kjósenda. Nei, stýrihópur sem verður sérstaklega búinn til mun leysa úr því fyrir fyrirtækið sem heldur svo verkefninu gangandi. Aftur á síðu 9, neðar:

„Til skoðunar kemur að þau réttindi og skyldur sem tengjast landinu að Keldum færist yfir til félagsins …“

Þarna er verið að undirstrika að verið sé að búa til fasteignafélag, ríkið sé að fara í fasteignabrask og ætli að færa réttindi og skyldur sem tengjast landinu að Keldum til félagsins frá þinginu, frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Á bls. 10, með leyfi forseta:

„Hlutverk félagsins er því að annast þróun landsins í samvinnu við skipulagsyfirvöld þar sem sérstök áhersla er lögð á að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika þess með hagkvæmu skipulagi og nýtingarhlutfalli sem samræmist áformum borgarinnar um þéttingu byggðar á samgöngu- og þróunarás Borgarlínu.“

(Forseti hringir.) Herra forseti. Er þetta frumvarp skrifað af borgarstjóranum í Reykjavík eða einhverjum öðrum í borgarstjórninni? (Forseti hringir.) Ég næ ekki að fara yfir þetta allt saman, ég læt þetta nægja að sinni, herra forseti.