150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

710. mál
[22:20]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Í vinnu nefndar sem var undir forsætisráðherra var lögð áhersla á að bæta umgjörð og löggjöf vegna tjáningarfrelsis og fjölmiðlafrelsis þar á meðal. Við erum auðvitað sammála um mikilvægi og þýðingu fjölmiðla fyrir lýðræðislega umfjöllun en hér er verið að taka á ýmsu af því sem komið er inn á, en það var ekki skoðað sérstaklega, hvorki í dómsmálaráðuneytinu né í þeirri nefnd sem ég vísaði til og Eiríkur Jónsson stýrði á vegum forsætisráðherra, að taka þetta frá sýslumanni, enda væri það algjör grundvallarbreyting. Hér er verið að halda í hina hefðbundnu málsmeðferð á lögbannsmálum og móta leið sem þarf auðvitað að finna milli þess að virða ákvæði um friðhelgi einkalífs en vera með í grunninn tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi. Ég held að sú leið sem hér er farin, þar sem bæði er verið að kveða á um umbætur um tímaramma og umbætur um bótaákvæði, sé mjög góð.

Varðandi spurninguna um hversu langan tíma þetta taki er erfitt að segja til um það. Þessi flýtimeðferð í lögum um meðferð einkamála er þarna af ástæðu til þess að mál gangi eins hratt og mögulegt er í gegnum kerfið. Og með því að taka einnig alla fyrirvara af hjá sýslumanni bind ég miklar vonir við að þetta geti gengið verulega hratt í gegn og niðurstaða fáist eins fljótt og verða má.