útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.
Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Í skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi, sem kom út fyrir réttu ári síðan, segir að íslenska hælisleitendakerfið hafi verið markvisst misnotað í þeim tilgangi að stunda hér svarta atvinnustarfsemi eða brotastarfsemi eins og mansal og misneytingu. Dæmi eru um að fólki sé þrælað út myrkranna á milli við slæm kjör. Sterkur grunur leikur á að mansal í ferðaþjónustu og byggingariðnaði hafi vaxið hratt á undanförnum árum. Í skýrslunni segir að þeir sem leiti alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni sökum bágrar félagsstöðu að sæta kúgunum og misnotkun af ýmsum toga.
Hér er um alvarlegt mál að ræða. Konur eru þvingaðar í vændi, segir hér, og skipulagt vinnumansal fer fram í svarta hagkerfinu svokallaða, t.d. ýmiss konar þjónustustarfsemi. Og áfram segir í skýrslunni að skortur á eftirliti sé beinlínis til þess fallinn að auka umfang svartrar atvinnustarfsemi og vinnumarkaðsbrota gagnvart útlendingum. Þá eru dæmi þess, eins og fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik haustið 2018, að umsækjendur um alþjóðlega vernd stundi svarta atvinnu hér á landi og séu í einhverjum tilvikum þolendur alvarlegrar misnotkunar.
Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er tekið tillit til hinna alvarlegu staðhæfinga sem fram koma í skýrslu ríkislögreglustjóra í frumvarpi þessu? Er verið að verjast þessari misnotkun í frumvarpinu? Getur hæstv. ráðherra þá gert grein fyrir því með hvaða hætti það er gert?