150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég tek heils hugar undir það sem hæstv. ráðherra segir hér, við þurfum að forgangsraða í þessum efnum og reyna að hraða málsmeðferðinni þannig að þeir sem virkilega þurfa á þessu kerfi að halda fái skjóta og góða afgreiðslu. En þetta er skýrsla frá ríkislögreglustjóra þar sem segir einfaldlega að það kerfi sem við erum búin að búa til í þessum lögum er misnotað markvisst í þeim tilgangi að stunda svarta atvinnustarfsemi og brotastarfsemi eins og mansal og misneytingu. Lögin verða að taka á þessu, hæstv. ráðherra, og það eru mikil vonbrigði að sjá að ekkert sé horft til þess. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það veldur mér vonbrigðum að ekki skuli hafa verið farið nákvæmlega ofan í þessa skýrslu og reynt að finna lausnir. Þetta er mjög alvarlegt mál. Við erum með kerfi sem verið er að misnota með alvarlegum hætti og við verðum að reyna að finna lausnir á því. Það verður að segjast eins og er, hæstv. ráðherra, að þetta svar veldur mér vonbrigðum.

Ég vil spyrja í lokin (Forseti hringir.) hvort eitthvað hafi verið sótt í smiðju nágrannaþjóðanna, Dana og Norðmanna, (Forseti hringir.) við mótun þessa frumvarps, hvort við höfum fært okkur í nyt reynslu þeirra í málaflokknum.