150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni þykir það miður, en hér er verið að taka á ákveðnum þáttum í útlendingalöggjöfinni, þ.e. meðferð og skilvirkni alþjóðlegrar verndar, að setja upp og lögfesta ákveðin ákvæði um styttri málsmeðferðartíma. Það bætir meðferð allra mála, hvort sem það er um alþjóðlega vernd eða skýrir dvalarleyfi og annað. Það sem hv. þingmaður nefnir er ekki sérstaklega til umræðu í þessu frumvarpi þar sem lögð er áhersla á þær breytingar sem ég taldi upp í framsöguræðu minni.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns er í frumvarpinu litið til ýmissa landa, bæði varðandi alþjóðlegar skuldbindingar okkar sem verið er að reyna að uppfylla, en líka hvernig ýmis lönd taka á því. Þar eru Norðurlöndin engin undantekning. Við erum í rauninni með kerfi sem svipar mikið til kerfa þeirra Evrópuríkja sem í kringum okkur eru þó að öll hafi þau sína útfærslu í þeim efnum, t.d. hvað varðar verndarmál, forgangsröðun og annað. Við erum bara að reyna bæta málsmeðferðartímann.