útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.
Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að harma forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á tímum sem þessum. Þegar búið er að ákveða að taka til efnismeðferðar mál fjölmargra flóttamanna vegna stöðunnar sem nú er uppi vegna heimsfaraldurs og þegar við vitum að flóttamannabúðir í Grikklandi eiga það á hættu að verða mjög illa úti í þessum faraldri á komandi mánuðum, þá ætlar hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn að drífa sig í að auðvelda stjórnvöldum að vísa fólki beint til Grikklands aftur. Það er sem sagt planið.
Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru rökin fyrir því að afnema getu Útlendingastofnunar og kærunefndar um útlendingamál til að taka til efnismeðferðar mál fólks sem vissulega er í viðkvæmri stöðu og má vissulega ekki við því að vera sent til Grikklands eða Ungverjalands, sér í lagi á þessum tímum? Hvers vegna ákveður hæstv. ríkisstjórn að fara þessa leið? Það er fyrri spurningin.
Síðari spurningin er um samráð og hversu samstillt ríkisstjórnin er í öllu þessu gumsi sínu hérna. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru kynnt á fundi ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta og þeim gefið tækifæri til athugasemda. Kom forsætisráðuneytið með einhverjar athugasemdir? Þetta hefur væntanlega verið lagt fyrir þingflokka allra stjórnarflokkanna. Komu einhverjar athugasemdir þaðan eða finnst þeim bara fínt að níðast svona á flóttamönnum?