150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurninguna sem oft er uppi um forgangsröðun á þessum tímum vegna hinna ýmsu mála sem nú hafa komið til þingsins eða hafa komið til umræðu þá voru fjölmörg mál tilbúin fyrir Covid eins og þetta sem er hér komið til umræðu og fer til nefndar og til meðferðar þingsins og ég tel það sjálfsagt. Hv. þingmaður kemur síðan inn á þær breytingar sem við höfum gert vegna Covid-19 varðandi hælisleitendur sem eru mjög öflugar og góðar breytingar og það er sjaldséð í löndum í kringum okkur að gengið hafi verið eins langt en það er af því að kerfið okkar er einnig með ákveðin tímamörk þar sem við ætlumst ekki til að fólk verði hér í ákveðinn langan tíma. Þessar breytingar munu ná til 225 einstaklinga í kerfinu okkar. Þegar horft er til landa þar sem verið er að veita ákveðnu fólki strax vernd þá hefur hún verið tímabundin en ekki varanleg, bara náð yfir þetta ástand.

Það er enginn sendur í flóttamannabúðir í Grikklandi og ég vil fá að leiðrétta hv. þingmenn þar sem við höfum ekki sent fólk á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Grikklands frá 2010 og ekki heldur til Ungverjalands ef því er að skipta.

Síðan varðandi forgangsröðunina, þetta eru margar spurningar sem hv. þingmaður beindi til mín, þá er verndarkerfið fyrir fólk sem er ekki með vernd og það þarf að forgangsraða þannig að við veitum þeim sem verða fyrir ómannúðlegri meðferð og eru að flýja stríðsástand vernd með skilmerkilegum og hröðum hætti og þannig er það í löndunum í kringum okkur. Það er ekkert ríki í Evrópu sem hefur hætt endursendingum á einstaklingum með vernd í öðru Evrópuríki en það fer alltaf fram mat samkvæmt 42. gr. útlendingalaga um að það megi ekki senda einstakling til baka þegar hann á á hættu ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópusambandsins. En við eigum að mínu mati að skoða aðrar leiðir til að bjóða fólk velkomið hingað sem er með vernd í öðru ríki, t.d. með víðtækari atvinnuleyfum (Forseti hringir.) og öðru slíku, af því að þar eru gríðarleg tækifæri sem við verðum að horfa á. (Forseti hringir.) Ég myndi hvetja félagsmálaráðherra til þess og hef gert það og ýtt á eftir að slíkt verði skoðað og bind vonir við að það verði gert.