150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði út í forgangsröðun vegna þess að það þurfti að skera allverulega af þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherra þurfti að taka ákvarðanir um hvaða mál fengju að lifa á þessu þingi og hver ekki og hún tók þá ákvörðun að það að auðvelda endursendingar til Grikklands væri eitthvað sem þyrfti að gerast núna á þessu þingi. Það er það sem ég meina með forgangsröðun og mér finnst hún skelfileg akkúrat núna. Þegar forsætisráðherra landsins talar um samstöðu þá drífur dómsmálaráðherra landsins sig í því að einfalda mjög brottvísun viðkvæmra hópa til Grikklands t.d. eða Ungverjalands.

Ég spurði sérstaklega um viðbrögð frá forsætisráðuneytinu við þessum fyrirætlunum hæstv. dómsmálaráðherra. Ég spurði um viðbrögð frá þingmönnum stjórnarmeirihlutans við þessum fyrirætlunum hæstv. dómsmálaráðherra. Komu einhverjar athugasemdir frá hv. stjórnarþingmönnum? Komu einhverjar athugasemdir frá forsætisráðuneyti?