150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru fjölmargar breytingar sem felast í þessu frumvarpi eins og hv. þingmaður getur séð ef hann hefur hlustað á ræðu mína hér áðan og margt sem hefur lengi beðið eftir afgreiðslu þingsins eins og brottvísunartilskipun frá Evrópuþinginu og breytingar varðandi Schengen og annað slíkt.

Spurningin um forsætisráðherra: Já, það komu ýmsar breytingar frá forsætisráðuneytinu sem og fjármálaráðuneytinu í meðferð málsins áður en það kom hingað. Síðan voru Vinstri grænir með fyrirvara við ákveðin atriði frumvarpsins en hér er búið er að mæta ýmsum athugasemdum eins og varðandi frestun réttaráhrifa og önnur ákvæði sem voru í fyrra frumvarpi.

Ég mótmæli því algjörlega að með þessu frumvarpi sé ráðherra að níðast á hælisleitendum enda er frumvarpið gert til þess að þeir sem eru í raunverulegri þörf fyrir vernd geti fengið hraðari og betri úrlausn sinna mála svo þeir eigi fyrr möguleika til að aðlagast íslensku samfélagi og fyrir þá er kerfið. Við þurfum að finna tækifæri með öðrum hætti, eins og ég nefndi í fyrra andsvari, fyrir þá sem eru með vernd í öðru ríki.