útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.
Virðulegur forseti. Ég ætla að halda áfram á svipuðum slóðum og hv. þingmaður á undan mér og spyrja út í verndarmálin og þá breytingu sem er lögð til um að sérstakar ástæður eigi ekki lengur við um þennan hóp flóttafólks. Ráðherra segir að þetta sé til að það fólk fái vernd sem eigi hana raunverulega inni en fólk er bara ekkert sammála ráðherranum um að það eigi ekki við þennan hóp. Þar vil ég sérstaklega nefna Rauða krossinn sem leggst eindregið gegn þessari breytingu. Það er aðili sem stjórnvöld treysta til að vera talsmaður hælisleitenda, talsmaður hópsins sem hér er fjallað um. Hér var spurt um samráð. Af hverju er ekki hlustað á Rauða krossinn með þetta? Afstaða Rauða krossins var mjög afgerandi.
Mig langar líka að spyrja um þörfina á málinu vegna þess að þetta frumvarp spratt fram á þeim tíma þegar virtist sem að þessi verndarmál væru að hellast yfir okkur í miklu magni. En síðan er liðinn dálítill tími, eitt og hálft ár síðan byrjað var að semja þetta frumvarp, og þeim málum hefur fækkað. Mig langar að spyrja ráðherrann hverjar tölurnar séu, hvernig þróunin í fjölda verndarmála í kerfinu hafi verið síðustu mánuðina áður en allt fór í harðalás vegna Covid.