150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er varanlegt miðað við þann fjölda sem við veitum alþjóðlega vernd hér á landi og það sést auðveldlega í tölum frá 2019 ef þær eru bornar saman við hlutfall af veittri vernd í löndum í kringum okkur og annað slíkt. Við göngum, eins og ég sagði áðan, frekar langt í þeim breytingum sem við erum að gera vegna Covid af því að við erum að veita fólki varanlega alþjóðlega vernd og taka til efnismeðferðar mál sem eru hér. Verndarmál hafa verið mismörg, eins og hv. þingmaður segir, en þau hafa verið að meðaltali um 20% þeirra mála sem eru í kerfinu á hverjum tíma. Það eru ýmsar breytingar vegna þessara mála af því að þetta eru einstaklingar sem eru komnir með vernd, ekki bara í Grikklandi heldur í öðru Evrópuríki, og kerfið er til að veita vernd. Þannig forgangsröðum við betur fyrir þá sem eru hér og hafa flúið ómannúðlegar og vanvirðandi aðstæður frá m.a. stríðshrjáðum löndum.