150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að átta mig á þeim fyrirvara sem hv. þingmenn Vinstri grænna setja við þetta frumvarp, ég er að reyna að skilja hvað hann þýðir. Ýmis stjórnarfrumvörp hafa nú strandað í þessari ríkisstjórn bara út af því að ákveðnir flokkar hleypa þeim ekki út úr sínum röðum vegna þess að þeir eru svo óánægðir með þau. Flokkurinn hefur það í kosningastefnu sinni að Ísland þurfi að axla ábyrgð og komi fólki í neyð til hjálpar eins og mögulegt er, bæði með því að taka á móti fleira flóttafólki og styðja fólk í því að geta lifað með reisn annars staðar í heiminum og flokknum finnst líka nauðsynlegt, með leyfi forseta, „að Ísland axli ábyrgð á forréttindastöðu sinni í alþjóðasamfélaginu og geri það sem í valdi stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda. Við megum ekki líta undan.“ Þetta eru ágætisorð, svo sem.

Í þessu frumvarpi þykir tilefni til þess að hverfa frá þeirri framkvæmd að umsóknir einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd séu teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga um sérstök tengsl og sérstakar ástæður. Þetta er fortakslaust bann við að taka þessi mál til efnismeðferðar sem við erum að ræða hér. Þetta þýðir að ef 17 ára unglingsstúlka kemur frá Grikklandi með ungabarn eða er þunguð er Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála beinlínis óheimilt að taka mál hennar til efnislegrar skoðunar og ber, vegna þess að hún hefur fengið hæli í Grikklandi, að vísa henni aftur þangað, algjörlega burt séð frá aðstæðum hennar. Þannig að ég spyr út í þessa fyrirvara: Hvað þýða þeir? Þýða þeir það að hv. þingmenn ætla ekki að greiða þessu ákvæði atkvæði sitt eða hvað þýðir nákvæmlega að þingflokkur Vinstri grænna hafi gert einhvern fyrirvara við þetta? Nú komst þetta mál inn, þetta er til umræðu. Telur hv. þingmaður sig hafa einhverja fullvissu fyrir því að þetta ákvæði verði ekki samþykkt fyrst það er komið á dagskrá?