150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og ég kom að í ræðu minni þá fjallar þetta mál um margvíslega hluti þegar kemur að málefnum útlendinga og suma þeirra tel ég vera til bóta, m.a. það sem ég fór yfir og snýr að fjölskyldusameiningu kvótaflóttamanna. Þegar kemur að endurnýjun á dvalarleyfum er verið að breyta því þannig að ákveðnir hópar geti á auðveldari hátt endurnýjað atvinnuleyfi sín. Þetta tel ég vera jákvætt. Ég sagði hins vegar einnig í ræðu minni að við í þingflokki Vinstri grænna hefðum verið með fyrirvara og þeir lúti m.a. að því sem snýr að sjálfvirknivæðingu í málefnum fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd í öðrum löndum. Það er afstaða mín og ég held að ég geti talað fyrir munn flestra í þingflokki Vinstri grænna þegar kemur að þessu máli. Sumt í þessu teljum við gott, öðru erum við ekki sammála.