150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er enn þá að reyna að átta mig á því hvað þessir fyrirvarar þýða. Þó að hv. þingmaður sé ánægður með ýmislegt í frumvarpinu er raunin sú að við erum ekki bara að tala um einhverja sjálfvirknivæðingu. Við erum að tala um að það er gert ómögulegt fyrir útlendingayfirvöld að taka tillit til aðstæðna flóttafólks sem hefur fengið vernd í öðru ríki, hvort sem það er í Ungverjalandi, Grikklandi eða annars staðar. Það er í frumvarpinu. Þetta stendur til að samþykkja eins og frumvarpið liggur fyrir núna. Hvað þýðir þessi fyrirvari? Þýðir hann að hv. þingmenn muni ekki greiða þessu ákvæði atkvæði sitt? Munu þeir berjast á móti því á einhvern hátt? Hafa þeir einhverja fullvissu fyrir því að þetta ákvæði nái ekki fram að ganga óbreytt? Hvert er eðli þessara fyrirvara? Hvað þýðir það í raun og veru þegar stendur til að samþykkja frumvarpið svona? Þetta er lagt fram sem stjórnarfrumvarp sem gefur til kynna að það sé meiri hluti á bak við það. Er meiri hluti á bak við 11. gr. í frumvarpinu sem tekur algerlega fyrir að tekið sé tillit til aðstæðna veikra barna eða þungaðra kvenna eða hvaðeina þegar fólk hefur fengið vernd í ríkjum eins og Ungverjalandi eða Grikklandi? Telja Vinstri græn sig hafa fullvissu fyrir því að þeim takist að koma í veg fyrir þennan óskapnað eða til hvers er þessi fyrirvari eiginlega?