útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.
Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lýsa aftur yfir djúpum vonbrigðum mínum með forgangsröðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á þessum fordæmalausu tímum, eins og þeir eru allt of oft kallaðir. Að velja núna að einfalda yfirvöldum að senda fólk til Grikklands og senda fólk til Ungverjalands er ótrúlegt. Það er ótrúlegt að flokkur sem kennir sig við mannúð og frið kjósi að forgangsraða þessu máli yfir höfuð og ótrúlegt akkúrat núna.
Mig langar að byrja á því að lesa aðeins upp úr umsögn Rauða kross Íslands vegna þess að sú umsögn er mjög viðamikil, ítarleg og mjög gagnleg við rýningu þessa máls. Mig langar að byrja að tala um Dublin-misskilninginn eða stóru Dublin-lygina sem ég hef tekið mjög duglega eftir í allan þann tíma sem ég hef verið að fylgjast með hörmulegri meðferð Íslands á réttindum flóttafólks, sem hefur verið í talsverðan tíma. Yfirvöld í útlendingamálum hafa sífellt haldið því fram að Dyflinnarreglugerðin skyldi þau einhvern veginn til þess að vísa fólki úr landi, að það hvíli sú skylda á þeirra herðum að vísa sem flestum á brott og sem mest. Við ættum að vera best í því að brottvísa fólki til annarra landa og taka sem minnsta ábyrgð. Ég hef heyrt þessa nálgun frá forstjóra Útlendingastofnunar en ég hef líka heyrt hana frá hæstv. dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins þannig að það kemur ekkert á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn leggi fram svona frumvarp. En það kemur á óvart að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi virkilega ekki spyrnt fótum við og komið í veg fyrir þennan óskapnað. Ég bara skil það ekki. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að allir ráðuneytisstjórar hafi verið látnir vita af þessu þannig að það hefur verið heldur betur langur fyrirvari til að koma í veg fyrir þennan óskapnað en hann hefur ekki verið nýttur. Þetta hefur ekki verið í forgangi. Það er á hreinu. Það hefur ekki verið lögð mikil áhersla á að koma í veg fyrir að útlendingayfirvöld geti sent fjölskyldur með börn eða veik börn eða hvern sem er sem má ekkert endilega við því að fara til Grikklands þar sem aðstæður flóttamanna eru hörmulegar. Það er gert auðveldara.
En að Dublin-misskilningnum, ég er að fara aðeins fram úr mér. Það sést mjög vel í greinargerð með frumvarpinu að breytingunum er ætlað, með leyfi forseta, „að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar og árétta að henni skuli beitt þegar þess er nokkur kostur“. Viðhorfið er að til þess að vinna eftir Dyflinnarreglugerðinni skuli beita henni þegar þess er nokkur kostur. Með þessu er átt við brottvísanir. Með þessu er ekki átt við að beita öðrum ákvæðum sem heimila það t.d. að ríki taki að eigin frumkvæði mál til efnismeðferðar þrátt fyrir að viðkomandi hafi sótt um einhvers staðar annars staðar.
Rauði krossinn fer ágætlega yfir það sem hann kallar misskilning. Mér hefur nú fundist það svo einbeittur brotavilji að halda þessu endalaust fram að ég er ekki viss um að ég væri endilega svo pen að kalla þetta misskilning. Rauði krossinn segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:
„Markmið breytingarinnar eins og það er skýrt í athugasemdum við frumvarpið virðist byggja á misskilningi varðandi tilgang Dyflinnarsamstarfsins og beitingu reglugerðarinnar. Virðist þannig sem markmið breytingarinnar um að „styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar og árétta að henni skuli beitt þegar þess er nokkur kostur“ þýði að umsækjendur skuli sendir til annars aðildarríkis samstarfsins þegar þess er nokkur kostur samkvæmt reglugerðinni. Í fyrsta lagi er rétt að taka fram að ekki er samhljómur um beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar meðal aðildarríkjanna um það hvernig þeirri samvinnu skuli háttað. Þannig hafa ríkin á jaðrinum eins og Ítalía og Grikkland kallað eftir því um alllangt skeið að ríki norðarlega í álfunni axli aukna ábyrgð og að umsækjendum um alþjóðlega vernd verði komið fyrir í öðrum ríkjum, þannig að ábyrgðin verði dreifðari. Upphaflegur tilgangur Dyflinnarsamstarfsins var sá að aðildarríkin deildu ábyrgðinni af auknu innstreymi flóttamanna til Evrópu en ekki að útvega ríkjum tæki til að varpa henni yfir á önnur ríki hvenær sem þess er nokkur kostur, líkt og frumvarpshöfundar virðast ganga út frá. Ríki Evrópu verða öll að taka ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd enda er reglugerðin byggð á slíkri samábyrgð, samanber ítrekaða tilvísun í reglugerðinni í orðið „samstaða“ (e. solidarity). Það að ætlast til þess að þau ríki sem vegna landfræðilegrar legu sinnar eru fyrsti viðkomustaður flóttafólks axli alla ábyrgð getur ekki talist tryggð við samstarf og samstöðu aðildarríkjanna í nokkrum skilningi þeirra orða.“
Samt er mjög skýrt markmið í þessu frumvarpi að stöðva það sem frumvarpshöfundar kalla „secondary movement“ og er hugtak í flóttamannarétti. En segja verður að langflestir flóttamenn sem koma hingað til lands hafi tekið þátt í einhvers konar „secondary movement“, þ.e. þeir hafi komið við í einhverju öðru aðildarríki Schengen, enda er landfræðileg lega Íslands hreinlega þannig að það er nánast ómögulegt að komast hingað til lands án þess að hafa drepið niður fæti einhvers staðar í Evrópu, líklega í Grikklandi, líklega á Ítalíu, líklega í þeim löndum þar sem aðstaða fyrir flóttamenn er hvað verst og þar sem geta ríkjanna til að sinna öllu þessu fólki er hvað minnst. Þá ætlar Ísland að leggja til akkúrat núna að auðvelda okkur að ýta út öllum sem hafa komið við einhvers staðar annars staðar í Evrópu. Þetta er samábyrgðin sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að stunda, hún sem talaði í ávarpi sínu á sunnudaginn um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs. Ég skil bara ekki hvernig það er hægt hjá flokki sem leggur áherslu á að taka á móti fleiri flóttamönnum og sem sagði í stefnu sinni fyrir síðustu kosningar árið 2017, með leyfi forseta:
„Nauðsynlegt er að Ísland axli ábyrgð á forréttindastöðu sinni í alþjóðasamfélaginu og geri það sem í valdi þess stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda. Við megum ekki líta undan.“
Mér sýnist þingflokkur Vinstri grænna hafa litið undan þegar kom að þessu frumvarpi. Við lítum bara undan. Þetta fær að fljóta í gegn. Það fær líka að sleppa við niðurskurðarhnífinn þegar þingmál eru skorin niður vegna Covid, ekkert mál. Við gerum einhverja fyrirvara en við getum ekki útskýrt hvað þeir fyrirvarar þýða gagnvart þeirri gríðarlegu réttindaskerðingu sem flóttamenn horfa fram á núna, verði frumvarpið að lögum.
Í fyrsta lagi vil ég að það komi skýrt fram að með þessu frumvarpi er verið að leggja til að afnema heimild Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála til að taka mál fólks til meðferðar sem fengið hefur dvalarleyfi sem flóttafólk í öðru Evrópuríki. Það er verið að fjarlægja alla heimild þessara stofnana til að taka þau mál til efnismeðferðar, algjörlega burt séð frá aðstæðum hvers og eins. Þetta eru allt mál, nota bene, virðulegi forseti, sem almenningur hefur skiljanlega verið mjög reiður yfir að sjá í fjölmiðlum undanfarið. Þetta eru flóttafjölskyldurnar sem átti að senda aftur til baka til Grikklands og komið var í veg fyrir vegna réttmætrar reiði almennings yfir því. Nú er verið að búa algerlega svo um hnútana að þetta verði ekkert vesen og það sé enginn tími fyrir þau til að sækja sér jafnvel samúð landsmanna til að fá að vera hérna áfram í stað þess að vera send til Grikklands. Nei, það er ekki einu sinni lengur möguleiki fyrir þau að fá málsmeðferð.
Hvatinn að baki þessu kemur skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu og hvers vegna er verið að gera þetta. Með leyfi forseta:
„Þá þykir tilefni til að hverfa frá þeirri framkvæmd að umsóknir einstaklinga sem þegar hafi hlotið alþjóðlega vernd séu teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga 2. mgr. 36. gr. um sérstök tengsl og sérstakar ástæður.“
Það er reyndar ekkert útskýrt hver sé afsökunin fyrir þessu en ef ég ætti að giska þá væri það einmitt að flýta meðferð og koma algjörlega í veg fyrir að almenningur nái að fá samúð með flóttabörnum sem senda á til Grikklands eða Ungverjalands. Það er fyrsti áherslupunkturinn.
Í öðru lagi er auðvitað vert að minnast á að þetta fortakslausa bann við því að taka til efnislegrar meðferðar mál á við um alla. Það á við um börn, gamalmenni, veikt fólk, óléttar konur — alla. Það er verið að afnema heimild til að taka mál þeirra til meðferðar vegna sérstakra ástæðna. Þetta fer þvert gegn því sem almenningur hefur kallað örvæntingarfullt eftir síðustu ár. Þess vegna skil ég ekki hvað þessari ríkisstjórn gengur til. Það má vera alveg á hreinu að það er ekkert verið að tala um að synja þessu fólki um dvalarleyfi. Það á ekki einu sinni að skoða umsóknir þess.
Mér finnst líka tilefni til að víkja að öðrum athugasemdum Rauða krossins hvað varðar þessa sjálfkrafa kæru og styttingu alls málsmeðferðartíma gagnvart kæru á synjun. Rauði krossinn fer mjög ítarlega yfir hvers vegna þetta er mjög slæmt fyrir réttindi flóttamanna og raunar má hér greina mjög harða og ítarlega gagnrýni á hendur Útlendingastofnun og hlutverk hennar af hálfu Rauða krossins, eitthvað sem ég hef ekki séð áður jafn skýrt frá Rauða krossinum. Það þýðir kannski að þeim sé líka farin að þrjóta þolinmæðin með þessu endalausa bixi yfirvalda um að koma helst sem verst fram við flóttafólk.
Í umsögn Rauða krossins kemur fram að samkvæmt 7. gr. frumvarpsins muni umsækjendur í málum sem falla undir 36. gr. útlendingalaga ekki eiga kost á að nýta sér núgildandi 15 daga umhugsunarfrest til ákvörðunar um kæru en í framkvæmd hafi umsækjendur gjarnan nýtt sér umræddan frest. Með leyfi forseta:
„Ástæður er liggja að baki þess eru þó nokkrar. Í fyrsta lagi eru ákvarðanir Útlendingastofnunar birtar og afhentar umsækjendum á íslensku og ekki þýddar á önnur tungumál […]“ — Þó ber okkur auðvitað skylda til þess samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, en hvað um það. — „Að mati Rauða krossins er frestur til umhugsunar um kæru nauðsynlegur til þess að gefa umsækjendum tækifæri á að kynna sér forsendur niðurstöðu ákvörðunarinnar og taka upplýsta ákvörðun um næstu skref.“
Hér kemur síðan mikilvægur punktur:
„Í öðru lagi hefur það því miður verið svo í framkvæmd að Útlendingastofnun vanrækir að mati Rauða krossins rannsóknarskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 25. gr. útlendingalaga og tekur ákvarðanir í málum sem rekin eru á grundvelli 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga án þess að umsækjandi hafi fengið greiningu á stöðu sinni og hugsanlegum sérþörfum líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 25. gr. útlendingalaga. Framkvæmdin sýnir að stofnunin vanrækir skyldu sína til þess að hafa frumkvæði að slíkri rannsókn, jafnvel þegar vísbendingar eru uppi í málinu að um einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé að ræða, hefur Útlendingastofnun ekki fallist á fresti til þess að umsækjendum sé gert kleift að afla slíkra gagna sjálfir. Enn fremur eru umsækjendur ítrekað látnir bera hallann af því ef gögn skortir sem varpa ljósi á andlega eða líkamlega heilsu viðkomandi. Afleiðingar þessarar vanrækslu stofnunarinnar eru alvarlegar þar sem að Útlendingastofnun metur umsækjendur almennt ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. töluliðar 3. gr. útlendingalaga og það þrátt fyrir að engin rannsókn á andlegu eða líkamlegu ástandi viðkomandi hafi farið fram í samræmi við 1. mgr. 25. gr. útlendingalaga Á þetta einnig við í málum þar sem um er að ræða einstaklinga sem falla beinlínis að einhverju þeirra atriða sem talin eru upp í 6. tölulið 3. gr. útlendingalaga, svo sem fórnarlömb mansals, fólk með geðraskanir og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi og vísbendingar liggja fyrir um afleiðingar þess á viðkomandi.
Vegna þessarar framkvæmdar hafa umsækjendur í sumum tilfellum þurft að nýta núgildandi umhugsunarfrest til gagnaöflunar.“ — Vegna þess að ekki sinnir Útlendingastofnun því. — „Algengt er sem dæmi að umsækjandi eigi bókaðan tíma hjá sérfræðingi á komandi dögum eða vikum en Útlendingastofnun fellst ekki á að bíða eftir því að gagna sé aflað í samræmi við 1. mgr. 25. gr. útlendingalaga áður en ákvörðun er tekin í málinu. Hafa umsækjendur þannig þurft að nýta kærufrestinn til þess að bæta upp fyrir vanrækslu stjórnvalda á rannsóknarskyldu sinni svo öll nauðsynleg gögn geti legið fyrir á kærustigi. Hér skal einnig áréttað að úrskurður kærunefndar útlendingamála er lokaúrskurður í máli viðkomandi þar sem möguleikar umsækjenda um alþjóðlega vernd til þess að bera mál sitt undir dómstóla hafa verið takmarkaðir verulega.“
Þannig að þetta er lengri vegferð sem við erum að tala um. Það er auðvitað búið að takmarka réttindi flóttamanna verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar og þeirrar sem var á undan. Það er mjög skýr stefna hjá Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst frekar óhuggulegt að sjá hvað stefnan er allt í einu orðin gagnsæ hjá Vinstri grænum.