útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.
Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vitnaði alloft í meira en ársgamla umsókn frá Rauða krossi Íslands þar sem allar tilvísanirnar í greinar frumvarpsins eru eins og þær voru 2019. Er hér ekki um sama frumvarp að ræða og hafa orðið ýmsar breytingar á frumvarpinu síðan, m.a. hafa ákvæði sem hún vísaði til í upphafi ræðu sinnar um Dyflinnarmál breyst.
Ég ítreka, af því að það kemur mjög óskýrt fram hjá hv. þingmanni, að enginn er sendur til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Við erum einmitt að taka við umsækjendum um alþjóðlega vernd frá þessum stöðum og veita fólki frá þeim ríkjum vernd hér norðarlega í álfunni. Við gerum það með því að endursenda ekki fólk til Grikklands á forsendum Dyflinnarreglugerðarinnar. Dyflinnarsamstarfið er samstarf Evrópuríkja um að eitt ríki beri ábyrgð á umsókn í einu ríki og er hluti af því alþjóðlega samstarfi sem við erum í.
En umræðan innan Evrópusambandsins hefur verið mikil um að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig þetta kerfi eigi að líta út til framtíðar, og breyta því þannig að ábyrgðin verði dreifðari en nú er. Líka má nefna að margir og fleiri en áður koma hér og gera Ísland að sínu fyrsta stoppi með umsóknum. Þeim umsóknum hefur fjölgað verulega og fara þær beint í efnismeðferð. Það sjáum við ef við skoðum til að mynda tölurnar frá 2019. Síðan segir hv. þingmaður að þetta hafi í för með sér ótrúlega stórar breytingar á stöðu hælisleitenda. Það er rangt því að flestir sem hafa vernd í öðru ríki fá neikvæða niðurstöðu enda er kerfið ekki útbúið fyrir þá sem eru nú þegar með vernd heldur fyrir þá sem þurfa að fá vernd.