150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má til með að leiðrétta hæstv. ráðherra: Ég talaði ekki um hælisleitendur, ég talaði um flóttamenn og er töluverður munur þar á. Við erum að tala um fólk sem hefur fengið viðurkennda stöðu flóttamanns og það er vissulega verið að gera verulegar breytingar á réttarstöðu þess fólks hér. Ég vitna aftur í frumvarpið, með leyfi forseta:

„Þá þykir tilefni til að hverfa frá þeirri framkvæmd að umsóknir einstaklinga sem þegar hafi hlotið alþjóðlega vernd séu teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga 2. mgr. 36. gr. um sérstök tengsl og sérstakar ástæður.“

Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á réttarstöðu þessa fólks. Og þarna er ég að tala um flóttamenn, ekki hælisleitendur, hæstv. dómsmálaráðherra.

Ég óska eftir því að fá nánari skýringar á því hvað það er nákvæmlega sem ég fór rangt með í máli mínu vegna þess að ég ræddi um breytingarnar á 36. gr. í samhengi við umsögn Rauða krossins, sem ég fæ ekki séð að hafi tekið neinum breytingum. Ég ræddi um afnám 15 daga umhugsunarfrests sem flóttamenn hafa. Ég ræddi um þann grundvallarmisskilning sem hæstv. dómsmálaráðherra og dómsmálaráðuneytið virðast hafa gagnvart því hvert markmið Dyflinnarreglugerðarinnar sé. Ég fæ ekki séð að sá misskilningur hafi verið leiðréttur eða sú sýn að Dyflinnarreglugerðin geri okkur einhvern veginn skyldug til þess að henda sem flestu fólki úr landi á sem skilvirkastan hátt.