150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Það sem ekki fylgdi með í lestrinum um Dyflinnarmálin hjá hv. þingmanni var hvaða breytingar hún var að tala um í frumvarpinu sem fælu í sér þær breytingar á Dyflinnarmálum sem hún margítrekaði hér. En til að bregðast við varðandi sjálfkrafa kærur er gengið út frá því að allir fái endurskoðun á sínu máli. Enn eru fyrirvarar stjórnsýslulaga, þ.e. ef afsakanlegar ástæður eða veigamiklar ástæður liggja fyrir því að ekki sé hægt að skila því innan 14 daga. En það breytir ekki framkvæmdinni með neinum hætti nema það styttir málsmeðferðartíma og eykur skilvirkni, en skerðir ekki réttarvernd aðila máls.

Ekki er farin sú leið að stytta kærufrest, sem hefði verið hin leiðin sem hægt hefði verið að fara til að reyna að stytta heildarmálsmeðferðartíma. En þá hefðu verið gerðar auknar kröfur til umsækjenda þar sem umhugsunarfrestur hefði verið styttur. Ekki var farið í að stytta kærufrestinn heldur var ákveðið að hafa sjálfkrafa kæru. Með því eru þó lagðar auknar kröfur á stjórnvöld þar sem mikill meiri hluti er kærður. Það kemur líka í veg fyrir að það farist fyrir að mál verði kærð eins og gerst hefur í kerfinu.

Síðan ítreka ég að það verður að gera greinarmun á þeim fjölmörgu málum sem koma hér og verða fyrstu umsóknarmálin, og aðilum sem fá þá efnismeðferð. Síðan eru það verndarmálin, eins og við erum farin að kalla þau, fólk sem komið er með vernd í öðru ríki. Ég tel eindregið að við eigum að skoða aðrar leiðir til að bjóða fólk velkomið hingað sem er með vernd í öðru ríki, m.a. að liðka fyrir atvinnuleyfum. Það er ekkert ríki í kringum okkur í Evrópu sem hætt hefur endursendingum á einstaklingum með vernd í öðru Evrópuríki og hafa þau mál að miklum meiri hluta fengið neikvæða niðurstöðu í kerfinu. Það er það mat sem ég hef vísað til í 42. gr. sem byggist á 3. gr. mannréttindasáttmálans sem er í lögunum í dag.