150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er minnisstætt að þýsk stjórnvöld tóku sig til og sóttu 500 flóttabörn til Grikklands vegna ástandsins núna þannig að samheldnin er misjöfn. Að fólk hafi fengið alþjóðlega vernd á stöðum eins og Ungverjalandi, Grikklandi og víðar í álfunni þýðir ekki að það njóti mannréttinda þar til jafns við aðra, það hefur verið margstaðfest. En hæstv. ráðherra hreykir sér af því að hún sé ekki að senda fólk aftur til Grikklands sem hefur opna umsókn hjá grískum yfirvöldum, en finnst allt í lagi að fólk sem komið er hingað til lands, vegna þess að það eru áhrifin sem þetta frumvarp mun hafa, fólk sem á jafnvel alvarlega langveik börn, er sjálft mjög veikt fyrir, sé endursent til Grikklands vegna þess að við megum það. Það er það sem þessi breyting felur í sér. Það er það sem ég er að gagnrýna hér. Það er grundvallarmálefnaágreiningurinn á milli mín og hæstv. ráðherra; mér finnst það ekki í lagi, bara ekki nándar nærri. Mér finnst það mjög ómannúðlegt og mér finnst það stappa nærri því að rífa borgararéttindi af flóttafólki. En hæstv. ráðherra vill passa að það endurtaki sig ekki að fólk fái vernd sem nú hefur fengið endurupptöku, hún vill passa að flóttabörn frá Grikklandi fái ekki það mikla samúð hér að stjórnvöld neyðist til að koma með einhverja skítareddingu til að leyfa þeim að vera hérna. Nú á að taka af allan vafa. Þessi börn mega ekki vera hérna og það má enginn skoða hvort þau megi vera hérna. Það á bara algjörlega koma í veg fyrir það. Þetta eru viðbrögð við því að almenningi fannst það algerlega óboðlegt að senda flóttafjölskyldur aftur til Grikklands þótt þær hefði fengið vernd þar. Þar erum við hæstv. ráðherra greinilega ósammála.