150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að koma inn á mál sem rætt var á þingfundi í gær en þó ekki dæmalausa ræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés og tilburði hans í ræðustól, það bíður betri tíma. Það sem ég vildi ræða og koma inn á er frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga. Í því sambandi vil ég nefna sérstaklega að í skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi sem kom út fyrir réttu ári segir að íslenska hælisleitendakerfið hafi verið markvisst misnotað í þeim tilgangi að stunda hér svarta atvinnu- eða brotastarfsemi eins og mansal og misneytingu. Dæmi eru um að fólki sé þrælað út myrkranna á milli við slæm kjör. Sterkur grunur leikur á að mansal í ferðaþjónustu og byggingariðnaði hafi vaxið hratt á undanförnum árum hér á landi. Í skýrslunni segir að „þeir sem leiti alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og jafnvel kúgunum af ýmsum toga“, konur séu þvingaðar í vændi og að skipulagt vinnumansal fari fram í svarta hagkerfinu svokallaða, t.d. í ýmiss konar þjónustustarfsemi.

Einnig segir í skýrslunni að „skortur á eftirliti á þessu sviði sé beinlínis til þess fallinn að auka umfang „svartrar atvinnustarfsemi“ og vinnumarkaðsafbrota gagnvart aðfluttum“.

Þá eru dæmi þess, eins og fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik haustið 2018, að umsækjendur um alþjóðlega vernd stundi svarta atvinnu hér á landi og séu í einhverjum tilfellum þolendur alvarlegrar misnotkunar.

Ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra í umræðunni í gær hvort tekið væri tillit til þeirra alvarlegu athugasemda og staðhæfinga sem koma fram í skýrslu ríkislögreglustjóra í frumvarpinu sem hún hefur lagt fram og hvort verið sé að verjast þessari misnotkun í frumvarpinu.

Svar dómsmálaráðherra er mikið áhyggjuefni. Það olli (Forseti hringir.) miklum vonbrigðum. Það er ekki tekið tillit til þeirrar skýrslu í þessari vinnu. Það er nauðsynlegt að nefndin (Forseti hringir.) fari vel ofan í saumana á þeim alvarlegu athugasemdum sem koma fram í skýrslu ríkislögreglustjóra um hvernig hælisleitendakerfið er misnotað hér á landi.