150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er þetta með raunverulegu verkefnin. Á sama tíma og við í stjórnarandstöðunni höfum verið að kalla eftir samráði og fáum að horfa á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um það sem á að fara að gera boðar hæstv. forsætisráðherra formenn flokka á Alþingi til samráðsfundar einmitt um breytingar á stjórnarskránni. Hér var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, einn af þremur turnum í ríkisstjórninni, að tala niður fundarboð forsætisráðherra um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni og þá vinnu sem þar er í gangi. Það er pínulítið sérstakt að standa fyrir utan þetta og fylgjast með stjórnarflokkunum takast á um verkstjórnina og hvernig eigi að haga málum.

Ég fagna því alltaf ef við náum einhverjum skrefum áfram varðandi breytingar á stjórnarskránni. Afstaða þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins til breytinga á stjórnarskránni er okkur öllum ljós enda hefur hann alls ekki leynt heldur mjög svo ljóst barist gegn breytingum á stjórnarskránni frá því að hann settist inn á þing.

Herra forseti. Ég held að við gætum orðið sammála um eitt, að umræddri vinnu sem hefur þokast áfram á þessu kjörtímabili verði ekki hent út í hafsauga í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur heldur skuldum við þjóðinni að láta þessa vinnu kristallast í að vera sammála um að breyta þótt ekki sé nema breytingarákvæðinu í stjórnarskránni svo að þjóðin sjálf, stjórnarskrárgjafinn, geti komið að borðinu, átt síðasta orðið eins og réttur hennar er. Þar með hættum við (Forseti hringir.) þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og annað fólk að þvælast fyrir þessum nauðsynlegu breytingum.