150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

um fundarstjórn.

[15:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp eingöngu vegna orða hv. þingflokksformanns og þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Birgis Ármannssonar, vegna þess að hann kvaðst ekki í grein sinni hafa verið að gagnrýna hæstv. forsætisráðherra fyrir að boða til fundar um stjórnarskrá. Þá tel ég að ég verði að vísa í það sem ég sá í grein hv. þingmanns þar sem hann talar um að öll áhersla hinnar pólitísku forystu í landinu hljóti að miðast við viðbrögð við efnahagsáfallinu, að tími, orka og athygli stjórnmálamanna hljóti að beinast að slíku og þeir verði þá að sætta sig við að setja önnur áhugamál sín til hliðar. Það var út af þessu sem ég las það svo að hv. þingmaður væri ósáttur við að hæstv. forsætisráðherra væri að beina sjónum sínum (Forseti hringir.) að einhverju sem honum þykir miður merkilegt, eins og stjórnarskrá lýðveldisins Ísland.