150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

um fundarstjórn.

[16:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Vitaskuld skiptir máli hvernig við hegðum okkur í þessum sal og annars staðar. Yfir það hef ég aldrei nokkurn tímann dregið fjöður, en ég er hins vegar ekki reiðubúinn til þess að hér sé slakað á reglum þannig að við endum með því að þingheimur gangi um klæddur eins og Andrés önd og félagar. Ég er ekki reiðubúinn í það, herra forseti, og hvað sem hver segir þá hef ég þá trú og nokkra reynslu af því að ef menn eru sæmilega til fara, ekki alveg eins og þeir séu að fara út með ruslið, þá ljái það þeim og því sem þeir gera, segja, framkvæma, ákveðinn blæ sem tapast að öðrum kosti. Ég ítreka það að auðvitað er það það sem við gerum og segjum sem skiptir máli, en engu að síður er nýjasta tilvikið í blóra við þingsköp, ef mér skjöplast ekki, og það þolum við ekki.