150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[16:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. prýðisræðu og ég ætla að taka það fram í upphafi andsvars að ég er sammála hv. þingmanni sérstaklega, sem fór vel yfir hér mikilvægi þess að hafa yfirsýn yfir aðgerðir. Þetta er auðvitað mjög sérstakt eins og hv. þingmaður fór vel yfir í upphafi ræðu, við erum hér að vinna hratt skattalegar aðgerðir, hér er annar bandormur á skömmum tíma og í samhengi auknar útgjaldaheimildir í fjárauka sem við ræðum væntanlega á morgun. Ég er ekkert síður sammála því að við þurfum að fá því tengt eitthvert mat á aðgerðirnar og tilætluð áhrif á efnahagslífið og samfélagið. Hv. þingmaður fór vel yfir hlutverk fjármálaráðs eins og það er skrifað inn í lög um opinber fjármál. Ég hef eilítið saknað þess, ekki síst núna við þær aðstæður sem við erum að vinna við og vinna hratt til að bregðast við ástandinu, að við höfum einmitt þennan aðila sem gefur okkur hlutlægt mat á aðgerðir. Ég hef upplifað það vel að þegar við fáum þetta hlutlæga mat á stefnu og áætlun um það grundvallar það alla umræðu og gerir hana mun faglegri. Mér finnst þó að í lögin vanti að skrifa það nákvæmar inn hvert þetta hlutverk er og jafnvel víðtækara. Það er spurning mín í fyrra andsvari til hv. þingmanni: Þurfum við ekki að skoða það?