150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[17:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stutta svarið við þessu er bara: Jú, það þurfum við að gera. Þegar við vorum að vinna með frumvarp um opinber fjármál í fjárlaganefnd á sínum tíma og við töluðum um að við þyrftum einhvern veginn að sjá fyrir að hér gætu forsendur brugðist — það gerist eitthvað í atvinnulífinu, það er aflabrestur, það er þjóðarvá — þá sáum við ekki nákvæmlega þessa stöðu fyrir. Þegar ég fór að fletta upp á þessu núna um daginn fór ég að hugsa um hvað við höfum verið með frábært þríeyki sem hefur talað við okkur á hverjum degi, almannavarnir og frá landlæknisembættinu, og í allri óvissunni þá líður manni vel að heyra í þeim og maður veit að þó að þau viti að allt getur gerst og allt það, þá eru skrefin samt tekin með þeirra faglega mat að baki. Þetta hefur vantað í efnahagsmálum, finnst mér, og þess vegna fór ég að skoða lögin um opinber fjármál og hlutverk fjármálaráðs og ég komst að því líkt og hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, að það er ekki alveg ljóst. Það stendur skýrt auðvitað í 10. gr. að ef ríkisstjórn segist ætla að taka stefnuna upp þá á fjármálaráðið að aðstoða okkur við að meta hvort ástæða sé til þess og ef fjármálaráð segir að ekki sé ástæða til þess þá verður ríkisstjórnin bara halda áfram og finna út úr því hvernig fjármálaáætlunin getur staðið miðað við stefnuna. En það er ekki alveg ljóst hvernig fjármálaráð á að taka frumkvæðið við svona aðstæður og birtast fyrir þinginu. Það þarf að skrifa það inn, ég tek undir það.