150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[17:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég vil taka undir að við eigum að skoða þetta. Þá vil ég taka spurninguna aðeins lengra af því að við erum núna í fyrstu aðgerðum, skattalegum aðgerðum og auknum útgjaldaheimildum, að bregðast við ástandi. Svo heldur verkefnið áfram og áhersla á nýsköpun og þróun mun væntanlega nýtast í því verkefni að draga hratt aftur úr atvinnuleysi og koma í veg fyrir að hér verði langtímaatvinnuleysi. Þá veltir maður því fyrir sér einmitt út frá þessu mati að samhliða verður verkefnið auðvitað að koma á aftur jafnvægi gjalda og tekna í ríkisfjármálum. Þetta verður ærinn starfi.

Ég hef aðeins litið til Danmerkur. Ég veit að við gerð laga um opinber fjármál þá horfðum við svolítið til þess hvernig sænska fjármálaráðið er. Danska efnahagsráðið hefur víðtæka hlutverk, mun víðtækara, og er samsett úr eiginlega öllum geirum, frá atvinnulífinu og opinbera geiranum o.s.frv. Þeir gefa hlutlægt mat tvisvar á ári, bæði á ríkisfjármál og danskan efnahag og ég held að við ættum að skoða þá mynd aðeins. Til að mynda við þær kringumstæður sem eru núna þá skrifa þeir stöðugt skýrslur og gefa mat á stöðunni og ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég sakna þess hér. Þess vegna vildi ég grípa þennan þátt úr ræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur af því ég tel að þetta sé afar mikilvægt. Það er auðvitað oft þannig þegar allt er í lukkunnar velstandi þá gleymir maður svona mikilvægum hlutum þegar maður er að hugsa þá. En ég held að við eigum að læra af þessu og bæta um betur.