150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[17:22]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir yfirferð formanns nefndarinnar og þær ræður sem hafa verið fluttar hér. Mér heyrist að vinna nefndarinnar hafi verið góð og gerðar voru ágætisbreytingar á frumvarpinu enda styður Samfylkingin það og öll góð verk þó að við leggjum ýmislegt annað til.

Ég tek undir með hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni sem ræddi um mikilvægi þess að taka djarfar og kjarkaðar ákvarðanir. Við erum að glíma við tvo mjög ólíka þætti og erfið verkefni á sama tíma. Í fyrsta lagi að bregðast við þessum faraldri og afleiðingum hans á efnahag þjóðarinnar núna, en við erum líka á ákveðnum krossgötum varðandi framtíðina og hefðum verið það hvort sem þessi veira hefði látið á sér kræla eða ekki. Við erum að að sigla inn í tíma þar sem aðgerða gegn loftslagsbreytingum er þörf og þar sem tæknibreytingar eru gríðarlegar. Einn af lærdómum síðastliðinna vikna er svo sannarlega of mikil fábreytni í íslensku atvinnulífi. Ferðaþjónustan hefur verið okkur gríðarlega mikilvæg og verður það vonandi áfram en er samt ótrúlega stór hluti af okkar þjóðarframleiðslu. Spurningin er hvort við eigum ekki að halda styrkum meginstoðum okkar í sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaðarframleiðslu og ferðaþjónustu en fjölga stoðunum. Ég held að það verði okkur alltaf til gæfu.

Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson talaði í stefnuræðu, fyrir tveimur til þremur árum, um stöðugleika og jafnvægi sem lykilþætti í stjórnmálum. Það má alveg taka undir það þótt ég sé ekki viss um að ég leggi endilega sama skilning í það og hann. En við getum auðvitað illa talað um stöðugleika núna. Við erum í þessum skelli saman og við þurfum að takast á við hann. Við getum hins vegar vel talað um jafnvægi núna vegna þess að eitt það versta sem gæti hent okkur, þegar við siglum út úr þessu á endanum, er að ójöfnuður hafi aukist í kjölfar kreppunnar eins og gerist oft, að grunnstoðir okkar hafi veikst um of, jafnvel þó að við náum að halda sjó og náum viðspyrnu í atvinnulífinu.

Þess vegna ætla ég að ræða þá hluti. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í þær breytingartillögur sem þingmaður Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, leggur fram og varða atvinnuleysisbætur, hún er búin að gera það. Eins og ég sagði áðan hefur margt gott verið gert. Það er vissulega, svo maður viðurkenni það, gríðarlega flókið fyrir stjórnvöld að mæta þessu verkefni vegna þess að við erum í þoku og sjáum ekki alveg út úr henni og framtíðin er óljós. Þá gildir auðvitað að taka djarfar ákvarðanir fyrir nútímann en einnig kjarkaðar og framsýnar fyrir þann tíma sem er lengra í burtu. Þess vegna höfum við stutt þær aðgerðir sem eru fordæmalitlar og fordæmalausar sennilega og varða stuðning við fyrirtæki í landinu. Það hefur verið nauðsynlegt að verja þau að stórum hluta í sumum tilfellum fyrir tekjufalli. En almenningur og heimili verða líka fyrir tekjufalli. Það er alveg rétt, þegar fólk hefur verið að takast á um heimili á móti fyrirtækjum, að hvor tveggja hluturinn er bráðnauðsynlegur og getur auðvitað ekki án hins verið þó að vissulega séu fyrirtækin fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir fyrirtækin. Stuðningur til fyrirtækja hjálpar auðvitað við það að halda fólki í vinnu við að búa til verðmæti sem eru grundvöllur fyrir því að við getum haldið uppi góðu velferðarkerfi. En það má hins vegar ekki útiloka að fara þurfi í miklu stærri og sértækari aðgerðir sem er beint til fólksins og heimilanna í landinu.

Það fólk sem er núna á hlutabótaleiðinni, sem er á uppsagnarfresti og dettur inn á naktar atvinnuleysisbætur ef ekkert breytist eftir nokkra mánuði, er að verða fyrir mjög miklu tekjufalli á sama tíma og heimilisútgjöldin eru föst og gætu jafnvel hækkað ef verðlag fer úr böndunum. Þess vegna, í þessu ástandi, eru atvinnuleysisbætur of lágar. Ekki er veittur nægilegur stuðningur fyrir þær tugþúsundir sem hafa misst vinnuna. Í sjálfu sér er það ekkert endilega eðlilegt í venjulegu ástandi að atvinnuleysisbætur séu hærri en lífeyrir aldraðra og öryrkja eða nálægt lágmarkslaunum vegna þess að þær eru tímabundnar og fólk á að geta verið á þeim til að bjarga sér og fara svo aftur út í atvinnulífið. En við erum ekki að glíma við neitt venjulegt ástand núna. Það hljóta allir að skilja. Margt fólk er að upplifa mjög erfiða tíma. Og af því að hér er nú einn hv. þingmaður í salnum læknir þá held ég að hann sé mjög meðvitaður um það líka að það áfall sem bíður margra heimila, foreldra sem eru að missa vinnu, barna sem eru að upplifa það að tekjur dragast saman með einum eða öðrum hætti, mun hafa áhrif á andlega líðan fólks. Við verðum að sýna því skilning, held ég. Þetta er gjarnan fólkið sem hefur ekkert endilega notið góðærisins síðustu ár en það hefur líka gert skuldbindingar miðað við venjuleg laun, venjulegt ástand. Fólk sem er búið að vera á nokkuð góðum launum, flugstjórar og aðrir, er líka að verða fyrir miklu tekjufalli en er með föst útgjöld. Það þarf að verja þetta fólk. Fólk sem er núna að fá þetta högg gæti mest fengið tekjutengdar bætur upp á 456.000 kr. þannig að við skulum ætla að mjög margir þar séu að missa töluvert úr heimilisbuddunni. Það er auðvitað allt of margt sem bendir til þess að hér verði viðvarandi langtímaatvinnuleysi í einhverjum mæli þó að við skulum sannarlega stefna að því öll saman að það verði sem minnst. Við komum að því á eftir kannski. Þeir sem eru atvinnulausir í meira en þrjá mánuði detta svo niður í 290.000 kr. og það sér auðvitað hver heilvita manneskja að það er erfitt að lifa af því. Það er auðvitað ömurlegt að aldraðir og öryrkjar þurfi að lifa á jafnvel minni upphæð en sá hópur er kannski í augnablikinu ekki að verða fyrir tekjufalli og hefur ekki skuldbindingar sem gerðu ráð fyrir hærri launum. Þetta er vandamál sem er ekki léttvægt.

Þess vegna tölum við um að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar strax í takti við launaþróun, tímabundið afnám skerðinga og hækkun á hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Svo loks að námsmenn geti tímabundið fengið atvinnuleysisbætur, hafi þeir verið í námi á vorönn, vegna þess að þessi 3.000 störf, sem er sannarlega mikilvægt skref og mikilvæg tillaga, sem á að bjóða upp á í tengslum við sveitarfélögin í landinu, munu ekki nægja þeim fjölda stúdenta sem nú kemur að lokuðum dyrum eins og við höfum eflaust öll heyrt um. Á sama tíma og allt atvinnulífið og efnahagslífið hefur dregist saman, færra fólk verður ráðið til hótela og veitingahúsa o.s.frv., er náttúrlega að koma fullt af fólki af atvinnumarkaðinum inn á vinnumarkaðinn, það þarf líka störf og er í samkeppni og er kannski með meiri reynslu og annað slíkt þannig að þetta verður mjög erfitt.

Fyrir þá sem nefna að það sé skrýtið að hækka atvinnuleysisbætur upp í 330.000 kr. nú til að bregðast við þessu ástandi og benda á að við séum að fara langt upp fyrir aldraða og öryrkja get ég huggað það fólk með því að það getur samþykkt frumvarp Samfylkingarinnar um hækkun á almannatryggingum til þessara hópa sem nemur lífskjarasamningum. Það var lagt fyrir í haust eða vetur og hefur ekki fengið afgreiðslu.

Verkefni dagsins er sannarlega vandasamt og enginn er öfundsverður af því. Ég veit auðvitað að stjórnvöld eru að vinna af fullum heilindum. En í ljósi þess að eitthvað sé til í orðtakinu að betur sjái augu en auga er ágætt að við hjálpumst aðeins að við að leggja í púkkið og vinna úr því. Það hefur verið gert að einhverju leyti í nefndunum. Ég tel að miklu betri bragur hefði verið á því ef það hefði gerst fyrr í ferlinu þannig að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu komið að borðinu strax. Að endurtaka það of oft kann að virka eins og ákveðið nudd þannig að við skulum bara láta það eiga sig, en það er hins vegar prinsippumræða vegna þess að við getum ekki skákað í því skjólinu að við séum með gott stjórnarfar og þetta séu vel þenkjandi ráðherrar, sem við sem betur fer höfum, og gott fólk. Þannig verður það mögulega ekki alltaf á Íslandi og því er verið að setja fordæmi. Hvað gerum við ef við erum í þeirri stöðu að við getum ekki treyst ráðherrunum okkar? Okkur greinir vissulega á um leiðir en við vitum að þetta er ekki vont fólk en horfum bara aðeins í kringum okkur í heiminum og það er ekki alveg sjálfgefið að það sé alltaf þannig.

Við þurfum í dag að einbeita okkur að því að verja fyrirtækin og gera þau klár til að veita viðspyrnu þegar allt kemst í gang. Í því ljósi er ég alveg tilbúinn til að horfa opnum augum á þær aðgerðir sem farið hefur verið í. Hlutabótaleiðin var góð og ég held að það hafi að mörgu leyti getað verið gott að veita fyrirtækjum með skilyrðum styrk til að segja upp fólki þannig að þau fari ekki á hausinn á meðan það er á uppsagnarfresti og fyrirtækin geti þá lagað sig að aðstæðum, fækkandi ferðamönnum, og verið af réttri stærð þegar viðspyrnan byrjar. En að sama skapi þarf ríkisstjórnin líka að koma með trúverðugar lausnir um hvernig hún ætlar að skapa vinnu fyrir það fólk sem hún er að greiða fyrir að sé sagt upp. Í því liggur kannski gallinn. Það má segja að það sem sé að frumvarpinu sé kannski ekki endilega það sem stendur í því, það er miklu frekar það sem stendur ekki í því, það sem vantar í það.

Í öðru lagi þurfum við að verja fólk, sem er með fastan kostnað í rafmagni, hita, fasteignagjöldum, íbúðalánum, bíl og guð má vita hverju, fyrir því tekjufalli sem það verður fyrir. Þetta nefndi ég áðan. Í þriðja lagi gætum við notað tækifærið núna til að styrkja grunnstoðirnar og ráða fólk inn á undirmannaðar stofnanir, bregðast við vanda sem er nú þegar til, m.a. skorti á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum víða, svo ég tali nú ekki um þann vanda sem skapast þegar aldurssamsetning þjóðarinnar er orðin með öðrum hætti. Við gætum byrjað þarna. Það er pínu villandi og furðuleg umræða sem hefur skapast þegar við höfum verið að ræða opinber störf og störf á einkamarkaðnum þegar hér hefur meira að segja fjármálaráðherra þjóðarinnar sagt að atvinnuverðmætin og verðmætasköpun eigi sér eingöngu stað hjá einkafyrirtækjum. Þannig er það nú bara ekki. Ef við horfum á sjávarútveginn þá ætla ég ekki að gera lítið úr því hvað harðduglegir, framsýnir og eldklárir útgerðarmenn og sjómenn hafa lagt af mörkum til að auka verðmæti þjóðarinnar, en það er ekki þannig að verðmætasköpunin hefjist þegar þú hendir út trollinu og ljúki þegar þú dregur það inn og selur fiskinn. Ef við hefðum ekki skóla til að skapa þekkingu, efla hugvit, heilbrigðisstofnanir, hafrannsóknir, nýsköpunarsjóði, eftirlit, baráttu um útfærslu landhelgi, svo ekki sé talað um alþjóðasamninga til að selja fiskinn, þá býst ég við að fiskurinn væri heldur verðminni en ella. Þess vegna held ég að við ættum öll að reyna að nálgast þessa umræðu á aðeins hófstilltari hátt. Ég er ekki að segja að ég geti ekki stundum sett hlutina í ýkt samhengi, en ég held að við verðum núna, af því að við þurfum að vinna saman á næstu árum, að átta okkur á því að verðmætasköpunin verður til úr mjög flóknu samspili hins opinbera og einkaframtaksins þar sem við öll komum með einum eða öðrum hætti að því að búa til verðmætin í landinu. Þess vegna er mjög mikilvægt núna að það náist sanngjörn skipting á arðinum og auðnum. Og ekki síst, þegar við erum að fara í gegnum þessi vandamál, að hér aukist ójöfnuður ekki í skjóli kreppunnar, ekki af því að menn endilega stefndu að því eða vildu það heldur vegna þess að við hugsuðum kannski ekki alveg út í það.

Í fjórða lagi, í anda þess sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði, þurfum við að þora að horfa aðeins fram fyrir tærnar á okkur og jafnvel til langrar framtíðar af því að okkar bíður gríðarlega flókið verkefni. Ég er búinn að nefna loftslagsbreytingarnar, búinn að nefna tæknibreytingar sem munu breyta eiginlega öllu okkar daglega lífi en geta hins vegar orðið lykillinn að miklum uppgangi á Íslandi. Það sem hefur verið erfitt fyrir Íslendinga, sem byggja á fáum atvinnuvegum í grunnframleiðslu, er að við erum langt frá mörkuðum, af því að við erum eyja langt úti í hafi, og við erum með fáar hendur miðað við margar aðrar þjóðir, þó að þær séu stórar á sumum þingmönnum. Þess vegna geta nýsköpunarfyrirtæki, tæknifyrirtæki, ekki síst þau sem eru að vinna með stafræna lausn, verið lykillinn að því að auka hér fjölbreytni og búa til vöru sem takmarkast ekki af fjölda handa, takmarkast ekki af fjarlægðum og lýtur ekki íþyngjandi kvöðum framtíðar vegna kolefnisfótspors. En þetta er ekki að gerast á morgun og auðvitað veit ég að við erum í Covid-neyðarviðbrögðum. En ég held að við getum ekki sleppt því að ræða það hvernig við viljum að heimurinn og Ísland sé inni í hinni löngu framtíð. Svo getum við ekki síður aukið verðmæti með því að spara innflutning og efla framleiðslu og nýsköpun í matvælagreinum. Við höfum séð hvað sjávarútvegurinn hefur skapað okkur mikil verðmæti og ekki bara það heldur líka búið til afleidda atvinnu í nýsköpun og tækni. Þetta held ég að við eigum alveg örugglega að geta gert í landbúnaðinum. Ég held að kannski verði landbúnaðurinn ein af stóru atvinnugreinunum okkar með eitthvert mesta sóknarfæri næstu ára og áratuga. Það gildir jafnt um þann hefðbundna landbúnað sem við höfum stundað og er ekki bara spurning um atvinnu heldur sjálfsmynd okkar og menningarverðmæti, og ekki síður í vistvænni, grænni og sjálfbærri framleiðslu á sviði grænmetis- og ávaxtaræktar og því um líkt.

Við stöndum hérna og getum ekkert annað en að bretta upp ermar og tekið djarfar ákvarðanir sem varða líf okkar nú á næstu vikum. Þar ættum við fyrst og fremst að hugsa um það fólk sem á hvað erfiðast, fólkið á lægstu laununum, fólkið sem er að missa vinnuna, fólkið sem sér fram á að missa vinnuna. En á sama tíma skuldum við börnum okkar, barnabörnum og þeirra börnum það að við tökum djarfar ákvarðanir, eflum nýsköpun, rannsóknir, menntun þannig að þau geti a.m.k. búið við jafn góð lífskjör og okkur voru gefin.