150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[17:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þakkir fyrir ágæta spurningu og að gefa mér tækifæri til að ræða þetta áhyggjuefni mitt aðeins frekar. Þó vil ég byrja á því að taka undir með hv. þingmanni, eins og við gerum nú almennt í umræðum um þessi mál, samstarfið í nefndinni var á margan hátt mjög gott.

Varðandi fjölmiðlana hefði ég talið langtum æskilegra að þingið legði línurnar um það með hvaða hætti þessu fjármagni yrði útdeilt. Það hefði þá verið hægt að ræða það hér í þingsal og það komið fram í frumvarpi, ellegar að við hefðum falið hæstv. ráðherra að leggja fram slíkt frumvarp, slíka útfærslu, í þinginu og þá gæfist tækifæri til þess fyrir þingmenn að ræða þau mál. Með þeim hætti erum við að fylgja eftir þeirri skyldu þingsins að fylgjast með fjárútlátum ríkisins.

Til lengri tíma litið varðandi þetta markmið, sem ég er algerlega sammála hv. þingmanni, eins og ég kom inn á í ræðu minni, um mikilvægi þess að styðja við einkarekna fjölmiðla, þá held ég að við ættum kannski að horfa meira til skattkerfisins og um leið til yfirgnæfandi stöðu ríkisfjölmiðilsins á markaði. En almennt, ef við hefðum tekið málið til umræðu í þinginu, svo ég velti vöngum út frá því sem ekki er að gerast, hefði ég talið æskilegt að tillögur þingsins miðuðu að því að koma til móts við fjölmiðla eins og önnur fyrirtæki með tilliti til þess tjóns sem þau hafa orðið fyrir vegna ástandsins. Þetta er kynnt sem viðbrögð við því og þar af leiðandi eðlilegt að komið yrði til móts við stöðu fjölmiðla sem eru með mikið umleikis, marga í vinnu og hafa orðið fyrir verulegu tjóni vegna t.d. minnkandi auglýsingasölu.