150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[17:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig hafa svarað þessu tiltölulega skýrt. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur náð að fylgjast með því en ég skal þá bara fara yfir það aftur. En fyrst: Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður segir, það er alltaf vandkvæðum bundið þegar ríkisvaldið fer að veita stuðning til fyrirtækja en einmitt þá þurfa reglurnar að vera skýrar og almennar. Ég held við höfum leitast við að fara þá leið gagnvart nánast öllum öðrum fyrirtækjum en fjölmiðlum þar sem kom inn þessi undarlega hugmynd um sérstakra reglugerðarheimild svo að ráðherrann gæti útdeilt fjármagninu nánast að vild. Eins og ég rakti áðan í svari við spurningu hv. þingmanns um hvernig ég hefði viljað gera þetta þá hefði ég í fyrsta lagi helst viljað að þingið setti slíkar reglur og þá væri tekið tillit til almennra viðmiða og af því að þetta er Covid-aðgerð, tekið tillit til þess hvaða tjóni fjölmiðlar hefðu orðið fyrir vegna þessa ástands. Ef það hefði ekki gengið hefði ég a.m.k. viljað að ráðherra væri falið að leggja þetta mál fram í þinginu þannig að þingið gæti rætt það. Ég hefði rætt það á sömu forsendum, að aðgerðir til fjölmiðla þurfa ekki síður en til annarra fyrirtækja við þessar aðstæður, ef aðgerðirnar eru merktar Covid-aðgerðir, að vera almennar. Þegar kemur að því seinna að koma til móts við fjölmiðla tel ég, eins og ég rakti áðan, að annars vegar þurfi að líta til stöðu yfirgnæfandi risans á markaðnum en einnig að létta undir með rekstrarumhverfi fjölmiðla með jákvæðum hvötum, ekki hvað síst skattalegum til þess að (Forseti hringir.) gera innlendum fjölmiðlum lífið auðveldara.