150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[18:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það væri freistandi að koma hingað og tala svolítið um fjölmiðla og nauðsyn þess að styðja við einkarekna fjölmiðla á Íslandi, hina frjálsu fjölmiðla, en ég er að hugsa um að sleppa því núna. Ég held að við höfum nægan tíma til þess á öðrum tímum. En mig langar til að byrja ræðu mína á að taka undir með þingflokksformanni Samfylkingar, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, um að það skorti um of á yfirsýn yfir þær aðgerðir sem við erum hér í.

Það vakti óneitanlega athygli mína þegar þau hv. þm. Oddný Harðardóttir og hv. þm. og formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, ræddu saman fyrr í dag um hversu mikilvægt það væri að fá fjármálaráð til að ræða við nefndarfólk í hv. fjárlaganefnd og hv. efnahags- og viðskiptanefnd um það hvað væri eiginlega að gerast og hvað fjármálaráð sjái fyrir sér að gæti gerst í náinni framtíð og komandi framtíð og á næstu vikum, mánuðum og misserum.

Við skulum skoða aðeins hvað fjármálaráð á að gera. Því er ætlað að tryggja að fram fari hlutlægt mat á stefnumörkun í opinberum fjármálum. Ráðið er sjálfstætt í störfum sínum og því er ætlað að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum sem lög um opinber fjármál kveða á um að stefnumörkun í opinberum fjármálum skuli byggð á er varðar sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi.

Ráðið skal, það er lögbundið, leggja mat á það hvort þessi tvö plögg, fjármálastefna og fjármálaáætlun fyrir hið opinbera, séu í samræmi við tiltekin töluleg skilyrði laga um opinber fjármál, svokallaðar fjármálareglur, um heildarjöfnuð og heildarskuldir.

Fjármálaráð er býsna vel skipað af fagfólki, sérfræðingum, og þó að sumir hafi mikinn vara á þegar maður talar um sérfræðinga þá held ég að í svona ástandi eins og við erum í núna þurfum við svo sannarlega á öllum okkar bestu og færustu sérfræðingum að halda, ekki bara í faraldursfræðum og smitsjúkdómum heldur líka í fjármálum og fjármálum hins opinbera og hvernig best er að haga málum.

Fram hefur komið í dag að loksins sé ætlunin að kalla fjármálaráð til og því fagna ég. Ég fagna því að núna, þegar líður að miðjum maí og við erum búin að dúndra út í kosmosið tugum og hundruðum milljarða úr opinberum sjóðum, að við ætlum að staldra aðeins við og fá fjármálaráð á eins og einn fund. Þær lagabreytingar sem við erum að fjalla um og eru víða annars staðar, bæði þær sem við höfum samþykkt og það sem við erum að fjalla um hér, munu hafa neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til skemmri tíma litið. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er gróflega áætlað að tillaga frumvarpsins geti lækkað tekjur ríkissjóðs um allt að 13 milljarða. Er það bara lítill angi því að fram komu ýmiss konar breytingartillögur. Svo er fjárlaganefnd að afgreiða annað. Síðan er verið að afgreiða þriðja pakkann og ég veit ekki betur en að Alþingi sé að fara að fá a.m.k. þriðja og fjórða pakka sem mun snerta fjölmarga. Þetta er bara einn lítill angi af þeim aðgerðum sem við erum að fjalla um í dag. Þingið og nefndarfólk, sem er nærri örmögnun eftir næturfundi og dagfundi, ber ábyrgð og þegar maður veltir fyrir sér myrkrinu sem þingmenn eru í er varðar umfang þessa verkefnis, ekki framtíðarinnar heldur umfang verkefnisins sem við erum í núna og yfirsýn aðgerða, þá hefur maður áhyggjur, svo ég tali bara heiðarlega.

Við erum að tala um mál er varðar stöðu tugþúsunda einstaklinga í dag. Við erum líka að tala um mál sem varðar framtíð okkar allra og myrkrið sem við erum í. Nú sitjum við ekki öll í fjárlaganefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd en maður heyrir það á máli þeirra sem koma hingað að það virðist engu máli skipta hvort þingmaður er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það virðist sem yfirsýnin, sviðsmyndin, greiningin á þörfinni, á stöðunni, á útfærslunni og þeim aðgerðum sem við erum í, sé öll harla óljóst. Af því að ég hef verið með þráhyggju frá því ég hóf hér störf fyrir skömmu að reyna að haga því svo til að við stunduðum vandaða lagasetningu þá finnst mér þetta eiginlega alveg óboðlegt. Ég finn mjög djúpt til með sérstaklega stjórnarþingmönnum sem eiga einhvern veginn að keyra þetta allt áfram, vitandi lítið sem ekki neitt út á hvað þetta gengur og hver sviðsmyndin er og hvernig greiningin er, því að yfirsýnin er nauðsynleg núna við ákvörðun um að deila út hundruðum milljarða eða að sleppa því að afla tekna upp á tugi milljarða. En nóg um það.

Mig langar líka að ræða aðgerðir þar sem mælt er fyrir um hvernig koma eigi til móts við tugþúsundir vinnandi einstaklinga sem eru nú komnir á atvinnuleysisskrá að hluta til eða öllu leyti. Staðan er ekki grá, hún er svört þegar á sjötta tug þúsunda starfsmanna eru skráðir á atvinnuleysisskrá og þá eru að sjálfsögðu ótaldir þeir 17.000 námsmenn sem þessa dagana eru að ljúka sinni vorönn; 17.000 námsmenn sem fá aldrei að vera taldir með. Af því að ef fólk kemst ekki inn á atvinnuleysisskrá þá kemst það ekki inn á atvinnuleysisskrá og þá er það ekki talið með. Það eru 17.000 námsmenn, sumir búa heima og geta fengið að borða heima hjá foreldrum sínum en aðrir eiga fyrir fjölskyldu að sjá, sem vita ekkert hvernig þau eiga að framfleyta sér og fjölskyldu sinni á næstu vikum og mánuðum.

Mér þykir miður að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hafi ekki verið tilbúinn til að greiða tillögum frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur atkvæði sitt og leyfa þeim að fylgja með, en þar er m.a. um að ræða breytingar á atvinnuleysistryggingalögunum þess efnis að námsmenn geti mögulega leitað einhverrar aðstoðar inn í þennan sjóð. Við skulum ekki gleyma því að heildarframlag í námslánakerfið okkar hefur hríðfallið á undanförnum árum, úr 16,8 milljörðum árið 2013 í 7,5 árið 2018. Umsóknum hefur fækkað um helming á tíu árum. Árið 2009 voru 14.000 nemendur á Íslandi sem sóttu um námslán, árið 2019 voru þeir 7.000. Þeim hefur fækkað mjög mikið sem eru á námslánum. Þeir námsmenn kjósa frekar að reyna að framfleyta sér með einhverri vinnu. Við þurfum líka að styðja við bakið á því fólki.

Í þessum tillögum frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur voru líka hugmyndir um að hækka grunnatvinnuleysisbæturnar því að þær eru allt of lágar. Við erum með þingsályktunartillögu í hv. velferðarnefnd sem er á svipuðum nótum og tillögurnar frá Oddnýju G. Harðardóttur og hafa þær verið í umfjöllun nefndarinnar undanfarna daga, enda um Covid-mál að ræða og þess vegna lýtur það mál ákveðnum forgangi í nefndinni. Við höfum fengið umsagnir frá Bandalagi háskólamanna, frá BSRB, ASÍ, frá Landssamtökum íslenskra stúdenta, Nemendafélagi Háskólans á Bifröst, frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, frá stúdentum erlendis o.s.frv., og það eru allir sem styðja þær tillögur sem þar koma um hækkun á grunnatvinnuleysisbótum, að hækka tekjutengdar atvinnuleysisbætur tímabundið og hleypa námsmönnum tímabundið, aftur segi ég tímabundið, inn á atvinnuleysisbæturnar. Af hverju tímabundið? Jú, af því að það hefur orðið að einhvers konar samkomulag hjá okkur að þegar fólk er í námi geti það ekki líka fengið atvinnuleysisbætur. En við verðum að tryggja framfærslu þessa fólks. Við getum ekki skilið það eftir. Við getum ekki, á sama tíma og við erum að sturta tugmilljörðum og hundruðum milljarða út úr okkar sameiginlegu sjóðum, sagt við námsmenn: Þið getið bara átt ykkur, þið verðið bara að finna út úr því hvernig þið ætlið að framfleyta börnunum ykkar í sumar.

Við getum ekki komið svona fram. Þetta er ekkert flókið. Þetta eru 17.000 einstaklingar, hluti þeirra þarf ekki á aðstoðinni að halda en hluti þeirra verður líka að fá aðstoð okkar. Það er það sem við erum að leggja hér til, að námsmenn fái á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. ágúst 2020 að sækja atvinnuleysisbætur eins og aðrir. Við sjáum alveg hvernig þetta lítur út, þeir námsmenn sem hafa í digra sjóði foreldra sinna og fjölskyldu að sækja munu geta haldið áfram sínu námi. Ætlum við bara að tryggja efnameiri námsmönnum örugga daga í sumar, og börnum þeirra? Er það þannig sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að haga málum í viðbrögðum sínum við þessu Covid-ástandi? Er það í alvöru þannig að við ætlum að skilja þennan hóp eftir? Nei, herra forseti, það er ekki í boði. Við getum ekki ákveðið að stilla því þannig upp. Það er bara ekki í boði. Við getum gert betur. Það eina sem ég bið um er að hv. þingmenn setji upp gleraugu jafnaðarmennsku í þessum aðgerðum sínum og tryggi að enginn hópur verði skilinn eftir. Yfirsýnin er nauðsynleg, hún er ekki til staðar, en þegar okkur er bent á ágallana verðum við að bregðast við.