150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[18:16]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að lesa fyrirvara hv. þm. Smára McCarthys sem kemur fram í nefndaráliti um frumvarpið sem við erum að fjalla um hér, en þar stendur:

„Þó að ég fagni þeim árangri sem hefur náðst í vinnslu nefndarinnar og geti stutt þær aðgerðir sem settar eru fram í frumvarpinu, að gefnum breytingum nefndarinnar, þá hefði verið jákvætt að ganga lengra á sumum sviðum. Einkum hefði verið til bóta að nýtt væri heimild til að veita 45% endurgreiðsluhlutfall vegna rannsóknar og þróunar í tilfelli lítilla fyrirtækja. Kostnaður lítilla fyrirtækja við að sækja fé í opinbera sjóði er vitanlega hærri sem hlutfall af heildarveltu en hjá stærri fyrirtækjum, og því hefði verið gott að koma til móts við þau þar. Sama mætti segja um stuðning við einkarekna fjölmiðla, listamannalaun og fleiri atriði. Þegar efnahagsáföll verða bitna þau alltaf mest á smæstu og verst settu aðilunum, sem jafnframt njóta síst góðs af eðlilegu árferði. Það væri því ágætis tilbreyting ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar endurspegluðu áhyggjur af afkomu þeirra, frekar en að leggja alltaf aðaláherslu á stærri eða fjársterkari aðila sem hafa eðli málsins samkvæmt betri bjargir.“

Í ljósi þess langar mig líka aðeins að tala um einmitt þessa verr settu aðila. Það á ekki einungis við um fyrirtæki heldur líka fólkið í samfélaginu. Ég las áhugaverða grein um daginn eftir rithöfundinn Halldór Armand Ásgeirsson þar sem hann bendir á að á meðan almenningur þarf alltaf að spara, leggja fyrir til að eiga fyrir óvæntum áföllum, þá virðast aðrar reglur gilda fyrir fyrirtæki. Þá hleypur ríkið undir bagga með fyrirtækjum sem hafa jafnvel greitt eigendum marga milljarða í arðgreiðslur í gegnum árin. Rökin fyrir þessu, forseti, eru yfirleitt þau að fyrirtækin séu samfélagslega mikilvæg, sem er skiljanlegt og það er rétt, í mörgum tilfellum eru þetta fyrirtæki sem eru samfélagslega mikilvæg.

En ég velti því þá fyrir mér: Er fólkið í landinu ekki líka samfélagslega mikilvægt? Er almenningur ekki grundvöllurinn fyrir því að fyrirtæki séu yfir höfuð til? Erum við ekki dálítið að horfa á þetta öfugt? Covid-19 heimsfaraldurinn, í sambland við tæknibreytingar og fjórðu iðnbyltinguna — það er alveg eins líklegt að Covid-19 muni virka sem einhvers konar „katalisti“ á tækniframfarir, þ.e. að flýta fyrir þeirri þróun sem var þegar að eiga sér stað — leiðir af sér samfélagsbreytingar í grundvallaratriðum þannig að það er mögulega ekki góð áhersla að setja svona mikið af peningum einungis inn í allt það sem skapaði tekjur áður. Hagkerfið sem við höfum búið við er líka orsök loftslagsbreytinga, mikillar streitu í lífi fólks, misskiptingar og fátæktar þannig að við höfum fulla ástæðu til að reyna að byggja upp nýtt, sjálfbært, grænt hagkerfi og endurreisa vinnumarkaðinn út frá þörfum fólksins. Og ég er ekki að segja að við verðum að gera það, það að er alveg ljóst að við gætum reynt að endurreisa bara það sem var. En er ekki einmitt núna tækifærið, ef það er vilji okkar að horfa fram á breytta tíma, til að fara í þær aðgerðir núna með þessar áherslur? Þetta væri t.d. hægt að gera með miklu frekari skilyrðum þegar kemur að því hvaða fyrirtæki ríkissjóður ætlar að styrkja og hvers konar skilyrði ættu sér stað, t.d. varðandi umhverfisstefnu eða annað, hversu lýðræðislegt fyrirtækið er gagnvart starfsfólki sínu. Það væri hægt að horfa á þetta út frá ýmsum sjónarhornum en eins og staðan er núna skortir okkur getuna til þess að fara aðeins út fyrir kassann og skoða þetta með meiri framsýni. Úrræði ríkisstjórnarinnar eru nefnilega hönnuð til að endurreisa hagkerfið eins og það var. Það hagkerfi var algerlega á forsendum fjármagnseigenda þar sem samfélagið var í raun hannað út frá þörfum vinnumarkaðarins í hagkerfi sem er háð endalausum vexti.

Forseti. Það sem mig langar til að tala um hér er mikilvægi þess að við fjárfestum líka í fólki. Ég skil þörfina á að styðja við og styrkja fyrirtæki en einhverra hluta vegna höfum við horft á það þannig að með því að styrkja fyrirtækin séum við einhvern veginn líka að styrkja fólkið. Þetta er svona brauðmolakenning tekin á nýtt „level“, afsakið enskuslettuna, að það muni skila sér til almennings í landinu. En hvers vegna ekki að styðja við, styrkja og fjárfesta í fólkinu í landinu á sama tíma? Þegar kemur að því að tryggja að fyrirtæki verði áfram í rekstri, mikilvæg fyrirtæki, þá þurfum við líka að tryggja að almenningur hafi getu til að halda þessum fyrirtækjum uppi. Eftirspurnin eftir vöru og þjónustu er til staðar hjá almenningi og ef við tryggjum ekki grunnframfærslu fólks, ef við tryggjum ekki að fólk hafi peninga á milli handanna til þess að eyða, þá fellur eftirspurnin niður. Þá fellur þetta allt saman um sjálft sig, fyrir utan bara kostnaðinn sem verður til í samfélaginu af því að viðhalda og auka fátækt í landinu.

Fátækt var svo sannarlega til staðar hér og er til staðar og við sáum það öll hér rétt áður en Covid-faraldurinn skall á þegar Kveikur gerði sérstakan þátt um fátækt á Íslandi. Það er ekkert verið að bregðast við þörf þessara hópa. Við erum ekki að tala um að hækka örorkulífeyrisgreiðslur, við erum ekki að tala um að hækka atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að tugþúsundir séu núna komnar á atvinnuleysisbætur og við sjáum það alveg að strípaðar atvinnuleysisbætur eru ekki grunnframfærsla, þær ná ekki einu sinni lágmarkslaunum og tekjutengingin er alveg gríðarlega lág þannig að fólk með meðallaun fellur ofboðslega mikið í tekjum. Hvernig ætlum við að tryggja það að fólk geti greitt reikningana sína, að fólk fari ekki að missa heimilin sín, hvað þá fólk sem er á leigumarkaðnum? Hvernig ætlum við að vernda heimilin í landinu og koma í veg fyrir að fólk hafi ekki tök á því að greiða reikningana sína?

Mér finnst það skorta í umræðunni núna og skorta í aðgerðapökkunum hvernig við tökum utan um fólkið í landinu á þessum erfiðu tímum. Það getur vel verið að þessar aðgerðir eigi eftir að koma og ég vona svo sannarlega, forseti, að þær eigi eftir að koma, það verði talað um að hækka atvinnuleysisbætur og tryggja grunnframfærslu fólks í landinu. En með hverjum degi sem við gerum það ekki aukum við á streitu og óöryggi fólks í samfélaginu um afkomu sína og við vitum alveg hvaða afleiðingar það hefur. Við vitum alveg hversu mikil aukning var á kulnun hér eftir hrun þegar fólk hafði verulegar áhyggjur af afkomu sinni.

Ég legg til að eftir þessa pakka, og vona það innilega, að við förum að tala um hvernig við getum fjárfest í fólkinu í landinu og hvernig við getum stóraukið fé til nýsköpunar, rannsókna og þróunar vegna þess að það þarf að gera það, við þurfum að horfa til framtíðar. Að setja meiri pening í nýsköpun, rannsóknir og þróun er sparnaður til framtíðar, við erum að byggja upp fyrir framtíðina.

Við þurfum líka að stórauka afkastagetu heilbrigðiskerfisins. Við þurfum að tryggja það að heilbrigðiskerfið sé vel undir það búið að ef annar svona faraldur skellur á. Við sjáum að við þurfum að tryggja laun hjúkrunarfræðinga. Við þurfum að tryggja þessar grunnstoðir og það þýðir að við þurfum að passa upp á að fólkið sem vinnur þarna og heldur þessum stofnunum gangandi fái mannsæmandi laun. Við þurfum einnig að horfa til þess að setja á grænan samfélagssáttmála. Við þurfum að eiga það samtal við þjóðina og ég sakna þess að sjá ekki meira fjármagn sett í grænar lausnir. Við þurfum að skoða samfélagið með jafnrétti og sjálfbærni að leiðarljósi til framtíðar.