150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[18:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í stuðning við nýsköpun sem kemur fram í frumvarpinu. Nefndarmenn eru mjög sáttir við það, eðlilega, en hv. þm. Smári McCarthy leggur til að gengið verði ögn lengra í þeim efnum. Mig langaði í fyrsta lagi til að spyrja hv. þingmann hvort einhver sérstök rök hefðu komið fram í störfum nefndarinnar gegn því að hækka framlagið enn frekar.

Mig langar að bæta aðeins við það sem kemur að nýsköpun því að nú sjáum við fram á að ferðaþjónustan verði löskuð, hugsanlega í dágóðan tíma. Þar kemur margt inn í, þar á meðal að faraldurinn getur geisað aftur, hann getur orðið verri og sömuleiðis eru það ekki bara innri aðstæður hérna sem skipta máli heldur ytri aðstæður í hverju landi eins og við þekkjum. Ferðamennirnir þurfa sjálfir að vera í þeirri aðstöðu að þeir geti ferðast hingað og til baka. Í ljósi þess finnst mér svo mikilvægt að við setjum mikinn þrótt í nýsköpun vegna þess að þar eru tækifæri til að búa til útflutningsgreinar sem stóla ekki á það að flugsamgöngur séu í fullu fjöri eins og þær voru á síðasta ári, heldur eru það verðmæti sem hægt er að skapa hérlendis og flytja úr landi yfir hið blessaða internet. Þess vegna hef ég verið pínulítið hissa á því hvað það er í raun og veru lítil áhersla á það almennt, ekki bara í þessu máli eða hvað þá í ræðu hv. þingmanns, að nýsköpun sé lykillinn að velgengni okkar til lengri tíma. Við þurfum í raun og veru að bæta upp skaðann af því að missa heila útflutningsgrein og enga smáútflutningsgrein.

Ég hjó eftir því að það var bara einn þingmaður í nefndarálitinu með þessa skoðun eða alla vega þannig að hún væri rituð niður. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort hann þekki einhver sérstök rök gegn henni eða geti útskýrt sitt sjónarmið aðeins betur að því leyti.