150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[18:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kannski er óþarfi að hafa áhyggjur vegna þess að varla er nokkur nýsköpun að eiga sér stað þessa dagana sem eitthvert vit er í án þess að hún sé með grænum áherslum. En það hefði verið ágætt að koma því einhvern veginn í orð vegna þess að eins og þingmaðurinn segir eru þetta mögulega 50 milljarðar á ári og heimildin sett inn til ársins 2025, hálfa leið inn í skuldbindingartímabil Parísarsamkomulagsins.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í annað atriði sem ég veit að við deilum áhuga á og það eru álagningarskrár og sú tillaga nefndarinnar að bregðast við samkomutakmörkunum með því að heimila skattinum að hætta að birta álagningarskrár frekar en að dusta rykið af sameiginlegri tillögu okkar til þingsályktunar um að birta þær rafrænt þannig að fólk þurfi ekki að mæta á þröngar skrifstofur skattsins og sitja yfir útprentuðum skrám heldur geti bara (Forseti hringir.) sótt þær á netinu. Það er líka meira í takt við þær breytingar (Forseti hringir.) sem við höfum gert á öðrum lögum. Við felldum ekki niður ákvæðið um meðmælendalista fyrir forsetaframboð (Forseti hringir.) heldur færðum möguleikana á að safna þeim í netheimum.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)