150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir góða spurningu. Tryggingagjaldið er sérstakur gjaldstofn sem reiknast af launum og mun því alltaf vega mjög þungt þegar fyrirtæki vega og meta jaðartekjur og jaðargjöld við það að ráða næsta starfsmann í vinnu — ef ég orða þetta á eins einfaldan hátt og ég get. Ég legg þann skilning í það og þess vegna mun það alltaf virka mjög vel. Umræða um tryggingagjaldið hefur enda oft farið fram í sölum þingsins og í þeim nefndum sem við höfum starfað saman í, m.a. í hv. fjárlaganefnd. Þetta er aumt svar en auðvitað kemur allt til greina við þessar aðstæður. Með þetta gjald sérstaklega verðum við hins vegar að horfa á hlutina í samhengi við kjarasamninga og vinnumarkað. Við þekkjum nýleg dæmi um ágreining um að ná samstöðu í samtali við vinnumarkaðinn um það en ég held að það verði að fara þannig fram.

Þegar ég er að tala um að draga úr atvinnuleysi þá snýr það að því að örva eftirspurn. Í því lokaða hagkerfi sem við erum að vinna í nú um stundir þurfum við að hugsa um hvernig við örvum innlenda eftirspurn því að það mun skapa störf. Við erum bara að horfa á framleiðslutap og þá nýtum við ekki framleiðsluþættina, við verðum fyrst og fremst að horfa þangað. Ég veit að ég er svolítið að skauta fram hjá tryggingagjaldinu af því að samstaða hefur ekki náðst um það. En ég held að ástæðan fyrir því sé sú að við þurfum að sjá það í samhengi við vinnumarkaðinn og það gildir þegar við erum að horfa á stóru myndina, ríkisfjármál, peningamál. Auðvitað hafa verið aðgerðir af hálfu Seðlabankans gagnvart lánastofnunum í hagkerfinu í heild sinni. Ég vona að ég sé ekki að svara á þann veg að hv. þingmaður meti það svo að ég sé að skauta fram hjá spurningunni.