150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Nei, hann var ekkert að skauta fram hjá því sem ég spurði hann um. Það kom fram hjá hv. þingmanni að hann telur eðlilegt að þetta verði skoðað og ég fagna því að sjálfsögðu. Þetta er mjög mikilvægt úrræði og ég vil hvetja stjórnvöld, ríkisstjórnina, til að skoða þetta alvarlega. Ríkisstjórnin hefur sett 30–37 milljarða í svokallaða uppsagnarleið, að borga fyrirtækjum fyrir að segja starfsmönnum upp, það má eiginlega orða það þannig. Ríkisstjórnin ákvað að greiða fyrirtækjum þennan þriggja mánaða uppsagnarfrest, borga þeim fyrir að segja starfsfólki sínu upp. Það er engin lausn í því úrræði. Það eykur skuldir ríkissjóðs og síðan fer þetta fólk á atvinnuleysisskrá að tímabilinu loknu. Eflaust eiga einhver fyrirtæki erfitt með að greiða uppsagnarfrest en þessir starfsmenn hefðu þá á endanum lent á atvinnuleysisskrá hvort eð er. En hins vegar er okkar leið, þessi tryggingagjaldsleið, lækkun gjaldsins og niðurfelling fram að áramótum, mjög árangursrík í því að styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækjanna og gera þeim kleift að halda starfsmönnum sínum og vonandi að bæta við sig starfsmönnum.(Forseti hringir.)

Niðurstaðan er sú, herra forseti, að ég hvet ríkisstjórnina til að skoða þetta úrræði alvarlega.