150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir framsöguræðuna. Mér þótti gott að heyra hann tala um sjálfbærni í útgjöldum ríkissjóðs og varkárni. Mér fannst líka gott að heyra hann að minnast á fjármálaráð, mikilvægi þess að við fáum hlutlaust mat á þeim aðgerðum sem verið er að ráðast í, einhvers konar ráðgjöf frá hlutlausum aðila.

Ég heyrði ekki alveg af máli hv. þingmanns hvort hann væri að segja að honum hefði þótt betra að leitað hefði verið fyrr til fjármálaráðs eftir ráðgjöf vegna útgjalda ríkissjóðs núna vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Finnst honum koma til greina að í næsta aðgerðapakka, sem er bara handan við hornið, í næstu viku líklega, að ég tel, að óska eftir því við ríkisstjórnina að hún leiti sér ráðgjafar? Ég hef áhyggjur af því að aðgerðapakki þrjú, sem er væntanlegur, gangi gegn markmiðum aðgerðapakka eitt, þ.e. hlutabótaleiðinni.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson minntist á að borga uppsagnarfrest hjá fyrirtækjum, en það gengur einhvern veginn þvert gegn markmiðum um að halda fólki í vinnu. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé þörf á því að leita ráðgjafar fjármálaráðs, sem er sjálfstætt ráð. Ég held að það sé boðið og búið til að veita bæði þinginu og ríkisstjórninni góða ráðgjöf í þessum málum.