150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:20]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða spurningu. Hún gefur mér tækifæri á að útskýra þetta nákvæmlega. Í lögum um opinber fjármál er blessunarlega kveðið á um hlutlægt mat af hálfu fjármálaráðs. Fjármálaráð er verkfæri sem teiknað er inn til þess að við fáum faglega umfjöllun um aðgerðir og það er mjög öflugt tæki, ekki síst fyrir þingið, til að sýna stjórnvöldum aðhald. En mér finnst það vanta. Það virkar alveg þegar allt gengur vel. Þá fáum við okkar stefnu og okkar fjármálaáætlun, sjáum á hverju fjárlögin byggja og fáum hlutlægt mat. Það hefur verið mjög til bóta í allri umræðu og umfjöllun um þessi stóru mál.

En þegar við lendum í þessu áfalli og berjumst við þessar óvenjulegu aðstæður, forsendur gildandi fjármálastefnu hrynja í raun og veru og ekki er hægt að gera fjármálaáætlun, þá höfum við í raun og veru engin mál sem fjármálaráð getur gefið okkur mat á. Við erum hins vegar að fara í mjög umfangsmiklar aðgerðir. Það er mjög óvenjulegt að vera að afgreiða hér fjárauka nánast í hverri viku og skattalegar aðgerðir í bandormi án þess að hafa eitthvert mat á því. En ég veit að hæstv. ríkisstjórn hefur auðvitað sérfræðinga í ráðuneytinu. Þeir eru í samtali við Hagstofuna um tölur og Seðlabankann og fjölmargir aðilar eru að teikna upp sviðsmyndir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fjármálaráðuneytið teikna upp sína sviðsmynd sem við höfum fengið að skoða í hv. fjárlaganefnd. En það væri mjög öflugt fyrir okkur að fá ráðgjöf frá óháðum aðila, sem hefur einhverja stöðu í ríkisfjármálum, í efnahagsmálum, sem myndi hjálpa okkur við að meta stöðuna.