150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það hefur reynst mér ágætlega að hlusta á hv. þingmann tala um fjármál og efnahagsmál í pontu. Hv. þingmaður dregur oft fram stærri fræðilegar hliðar á efnahagsmálunum og viðfangsefninu hverju sinni sem núna er auðvitað ærið. Mig langaði að fara aðeins inn á svipaðar slóðir og hv. 3. þm. Suðurk., Birgir Þórarinsson, hvað varðaði tryggingagjald eða reyndar öllu heldur skatta almennt. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að það yrði þegar fram líða stundir, í sumar og kannski lengur, ærið verkefni að halda jafnvægi milli tekna og útgjalda ríkissjóðs. Ég tek undir það með hv. þingmanni og held að það sjái allir sem vilji og jafnvel þeir sem vilja ekki. Liggur það þá ekki í eðli þess hlutar að það skynsamlegasta sem ríkið, ríkissjóður, gæti gert til þess að alla vega ná því markmiði að halda jafnvægi á þeim tíma sé að draga úr skattbyrði núna?

Í öðru lagi, í samhengi við það sem hv. 3. þm. Suðurk. sagði um tryggingagjaldið sem er ein tegund af skattheimtu, það eru til fleiri tegundir af sköttum, þá velti ég fyrir mér hvort ekki væri sniðugast að einbeita sér að því núna að lækka skatta á einstaklinga þannig að þeir geti verið frjálsari frá því og til að hvetja til þess að þeir geti beitt fjárhagslegum áhrifum sínum í hagkerfinu og þar af leiðandi ýtt undir eftirspurnina. Ég vil meina að það sé hrun eftirspurnar í reynd sem við er að etja hér. Ég gæti lengt spurninguna enn frekar en kannski þetta dugi í bili, alla vega miðað við þann skamma tíma sem við höfum.