150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisandsvar. Ég tek heils hugar undir að það er afar mikilvægt að standa vörð um heimilin jafnt sem fyrirtæki og störf í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa verið að vinna að. Við í Miðflokknum höfum flutt tillögur þess efnis að koma sérstaklega til móts við heimilin og munum flytja tillögur við fjárauka í þeim efnum. Ég nefni sérstakar aðstæður hvað varðar þá sem verða atvinnulausir, niðurfellingu á fasteignagjöldum o.s.frv., sem við höfum lagt til. Í mínum huga er þetta ákaflega mikilvægt og ég mun skoða frumvarp Pírata um frestun á nauðungarsölum með mjög opnum huga.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að það á engin fjölskylda í landinu að þurfa að missa heimili sitt vegna þessa veirufaraldurs sem við berum enga ábyrgð á. Þess vegna er vel þess virði að skoða frumvarp af þessu tagi gaumgæfilega og sjá hvort það geti ekki nýst heimilunum í núverandi aðstæðum, sem eru að sjálfsögðu fordæmalausar. Því miður þekkjum við það úr efnahagshruninu þegar þúsundir Íslendinga misstu heimili sín vegna aðstæðna sem, eigum við að segja óreiðumenn í fjármálageiranum báru ábyrgð á. Ég fagna því að fá að skoða þetta frumvarp. Ég hef ekki kynnt mér það en mun að sjálfsögðu gera það með opnum huga.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Það á engin fjölskylda á Íslandi að þurfa að missa heimili sitt vegna þeirra hamfara sem dunið hafa yfir þjóðina vegna veirufaraldursins.